Ríkisstjórnin hefur samþykkt efnahagsaðgerðir í þágu menningargeirans upp á hálfan milljarð.

Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála,- viðskipta- og menningarmálaráðherra, tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi að hálfum milljarði verði varið til að styrkja menningargeirann.

„Við erum að fara í sértækar aðgerðir fyrir menninguna, tónlistina og sviðslistir. Þetta er tæpur hálfur milljarður sem mun skipta miklu máli því þetta þýðir að við getum komið menningunni yfir þetta tímabil. Ég er afar sáttur menningarmálaráðherra að koma af þessum fundi,“ sagði Lilja við fjölmiðla í hádeginu í dag.

Ekki var nánar greint frá því hvernig þeim styrki verði úthlutað en má búast við fregnum frá Stjórnarráðinu fljótlega.

Búið er að tilkynna um listamannalaun í ár en sviðslistafólk býður enn eftir tilkynningu um úthlutun frá sviðslistasjóði.

Fagfélag lýsti yfir áhyggjum

Stjórn fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, KlassÍs, lýsti þungum áhyggjum yfir stöðu og starfsumhverfi klassískra söngvara á Íslandi eftir úthlutun úr starfslaunasjóði tónlistarflytjenda. 

Í ár hlutu aðeins þrír klassískir söngvarar úthlutun úr sjóðnum í samtals 22 mánuði. Árið 2021 hlutu 12 klassískir söngvarar úthlutun í samtals 73 mánuði. Félagið segir að ráðstafanir vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa haft þau áhrif að starfsgrundvöllur tónlistarflytjenda og sviðslistafólks hefur hrunið.