Slökkvilið Múlaþings berst nú við mikinn eld í húsnæði Vasks á Egilsstöðum við Fagradalsbraut.

Þakið er hrunið að stórum hluta við þann enda hússins þar sem eldurinn kviknaði. Haraldur Geir Eðvaldsson slökkviliðsstjóri segir eldinn mikinn og erfiðan.

„Þetta er mikill og erfiður eldur í vondu húsi. Þetta er erfitt en starfið gengur þokkalega. Við erum að vinna við að verja hinn enda hússins sem logar ekki,“ segir Haraldur Geir í samtali við Fréttablaðið.

Slökkvilið að störfum. Helsta verkefnið er að passa að eldurinn breiðist ekki yfir í hinn enda hússins.
Mynd: Unnar Erlingsson
Veggurinn á framhliðinni er farinn.
Mynd: Unnar Erlingsson
Byggingin sem logar er við Fagradalsbraut skammt frá gatnamótum Seyðisfjarðarvegar.
Mynd: Unnar Erlingsson

Eldur logar einnig í bíl í bílastæði bak við húsið en annars hefur hann ekki breiðst yfir í önnur húsnæði í kring að sögn Haralds. Þeirra helsta verkefni er að passa að eldurinn nái ekki að breiðast yfir í hinn enda hússins.

Íbúar á Egilsstöðum fylgjast með eldinum en mikinn reyk og hita leggur frá húsinu. Aðspurður sagðist Haraldur ekki geta sagt til um upptök eldsins.

Hér má sjá bílinn sem brann til kaldra kola.
Mynd: Unnar Erlingsson
Mikinn reyk leggur frá húsinu.
Mynd: Unnar Erlingsson

Enginn slasaðist

Fulltrúar Vasks hafa sent frá sér yfirlýsingu um eldinn.

„Okkur þykir mjög leiðinlegt og sárt að sjá fyrirtækið okkar fara svona illa. En það sluppu allir ómeiddir úr húsinu.“