Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að 99,5% þeirra sem smitast og eru bólusettir veikist ekki alvarlega. Hann segir engu að síður tilefni til þess að skoða aðgerðir hérlendis vegna fjölda smita innanlands.
„Tölfræðilega séð lítur þetta út þannig að fyrir bólusetningu lentu 5% þeirra sem smituðust á Íslandi á spítala. Við erum núna með bóluefni sem veita svona upp undir 90% vörn. Þannig má reikna með því að 0,5% lendi á sjúkrahúsi og tölurnar fram til dagsins í dag passa við það,“ segir Kári.
„Við erum með mann inn á spítala sem lagðist inn með lungnasjúkdóm af völdum COVID-19 og var bólusettur,“ bætir hann við.
„Síðan á þetta eftir að komast upp í eldri hópana og þá sem eru veikir fyrir þannig ég hugsa að lágmarkið sé að það verði 0,5% en það gæti verið meira,“ segir Kári

Bólusetning meiri vörn gegn veikindum en smiti
Alls greindust 56 Covid-smit innanlands í gær. Af þeim sem greindust voru 43 fullbólusettir, bólusetning var hafin hjá tveimur og ellefu voru ekki bólusettir. Smitum hefur fjölgað hratt á síðustu dögum og hefur veiran verið í veldisvexti.
Spurður um hvort þetta sé vegna þess að Delta-afbrigðið sé meira smitandi, segir Kári að við hefðum mátt sjá þetta fyrir með því að aflétta öllum takmörkunum.
„Staðreyndin er sú að við lifum í opnu samfélagi núna og það er ljóst að bólusetningin veitir meiri vörn gegn því að verða lasinn þegar þú sýkist heldur en vörn gegn því að sýkjast. Þannig þetta er í sjálfu sér ekkert á svig við þann raunveruleika sem við hljótum að hafa reiknað að einhverju leyti með,“ segir Kári.
Grímuskylda, loka börum og aflýsa Þjóðhátíð
Spurður um hvort það sé lausn að leyfa veirunni að dreifast þar sem 99,5% þeirra sem smitast veikjast ekki alvarlega, segir Kári það verða að meta það dag frá degi.
„Við hljótum að vega þetta og meta á hverjum degi. Það er að segja hvað er þetta orðið alvarlegt vandamál fyrir þá sem sýkjast? Og ég held að við hljótum að velta fyrir okkur þeim möguleika að taka aftur upp grímuskyldu innanhúss, eins og menn hafa nú þegar gert í Ísrael og í Kaliforníu,“ segir Kári.
„Menn eru líka að velta fyrir sér hvort eigi að loka börum eða stöðum þar sem menn eru mjög nálægt hver öðrum,“ bætir hann við.
Aðspurður um hvernig það horfi við honum að halda þúsunda manna Þjóðhátíð í þessu ástandi, segir hann að það megi alveg aflýsa hátíðinni.
„Ég held að það myndi enginn meiðast af því að aflýsa Þjóðhátíð. Ósköp einfaldlega vegna þess að á þessum stöðum þar sem menn drekka áfengi þá minnka hömlur og þegar hömlur minnka verða meiri og meiri líkur á þeirri tegund samskipta sem getur leitt til smits,“ segir Kári að lokum.