„Þetta er mjög jákvætt – og skref í rétta átt,“ segir Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður Samtakanna 78, í samtali við Fréttablaðið. Sóttvarnalæknir er þeirrar skoðunar að vel komi til álita að heimila karlmönnum sem stunda kylíf með karlmönnum (MSM) að gefa blóð að undangengnu sex mánaða kynlífsbindindi.

Unnsteinn segir að þetta sé í takti við nokkrar þjóðir í kring um okkur. Danir hafi þó gengið skrefinu lengra nýverið og heimilað MSM að gefa blóð hafi þeir ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði. Það fyrirkomulag tekur gildi um áramót.

Þetta kemur fram í ritinu Farsóttarfréttir, fréttabréfi sóttvarnalæknis. Þar segir að sóttvarnalæknir hafi metið stöðuna að beiðni velferðarráðuneytisins. Álitið sé byggt á reynslu og áhættumati annarra þjóða. „Með vandaðri skimun blóðs á að vera lítil eða nánast engin hætta á blóðbornu smiti með slíku fyrirkomulagi.“

Fram kemur að hafa þurfi í huga að engin blóðgjöf sé fullkomlega örugg. Allar aðgerðir þurfa að taka mið af því að draga úr áhættu eins og kostur sé. Því þurfi skimun fyrir blóðbornum sjúkdómsvöldum að ná til allra blóðgjafa, eins og segir í greininni. Eðlilegt sé að sóttvarnaráð, sóttvarnalæknir og velferðarráðuneytið fái einnig tækifæri til að veita álit á málefninu.

Forsendur blóðgjafar MSM eru að mati sóttvarnalæknis að vanda skuli spurningar til blóðgjafa og gæta fyllsta trúnaðar um svör. Þá þurfi rannsóknaraðferðir við skimun á öllu blóði fyrir HIV, lifrarbólgu B og C og sárasótt að vera bæði áreiðanlegar og hagkvæmar. „Einungis Blóðbankinn í samvinnu rannsóknarstofu í sýklafræði á LSH og erlenda blóðbanka getur svarað því hvaða rannsóknaraðferðir eru hagkvæmastar og hver kostnaður við skimunina yrði.“

Unnsteinn fagnar álitinu og segist hafa trú á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þegar að þessu máli kemur. Nú þurfi að fylgja álitinu eftir svo breytingar nái í gegn. Hann segir aðspurður að sönnunarfærsla kynlífsbindindis geti verið erfið en tekur fram að traust þurfi að ríkja á milli aðila. „Þetta er mjög jákvætt og fyrsta skrefið í rétta átt.“