Allir ráðherrar Frelsisflokksins í Austurríki hafa sagt af sér embættum. Fyrir vikið ríkir fullkomið uppnám í ríkisstjórn landsins.

Formaður flokksins, varaforsætisráðherrann Heinz-Christian Strache, var neyddur til að segja af sér um helgina eftir hneykslismál. Myndband var birt þar sem hann virtist tjá konu, sem kynnti sig sem frænku rússnesk viðskiptajöfurs, að hann gæti fjármagnað flokkinn með ólögmætum hætti.

Frelsisflokkurinn er popúlískur hægriflokkur og hefur átt í stormasömu stjórnarsamstarfi við Þjóðarflokk Sebastian Kurz kanslara. Sá fór þess á leit við forseta landsins, eftir að málið kom upp á föstudag, að boðað yrði til kosninga sem fyrst.

Frelsisflokkurinn hótaði fjöldaafsögn fyrr í dag ef innanríkisráðherrann Herbert Kickl yrði neyddur til að segja af sér líka. Kurz hafði kallað eftir því um helgina að Kickl, sem er aðalritari flokksins, ætti líka að axla ábyrgð og hætta.

Nú hafa þeir sem stýrðu utanríkismálum, varnarmálum, samgöngum, og velferðarmálum sagt af sér. Frelsisflokkurinn átti helming allra ráðherra í ríkisstjórn landsins.

Á næstu dögum fara fram kosningar til Evrópuþingsins, þar sem útlit var fyrir stórsigur flokka á borð við Frelsisflokkinn. Áður en ógæfan dundi yfir var búist við að Frelsisflokkurinn fengi 20% austurríkskra atkvæða til Evrópuþingsins.