Spænskur maður var sektaður um tæplega hálfa milljón króna og rekinn úr landi er hann var staðinn að því að vera með smáræði af kjöti og osti við komuna til Ástralíu.

Samkvæmt frétt SBS News í Ástralíu braut Spánverjinn, sem er tvítugur að aldri, gegn hertum lögum um lífrænt öryggi Ástralíu. Á flugvellinum í Perth hafi komið í ljós að hann hefði ekki skráð 275 gramma svínapylsu, 665 grömm af svínakjöti og um það bil 300 grömm geitaosts sem hann hafi haft meðferðis.

Áðurnefndum lögum er ætlað að vernda lífríki Ástralíu fyrir sjúkdómum og skaðvöldum utan frá. Haft er eftir Murray Watt landbúnaðarráðherra að hann telji þessi ströngu viðurlög ekki munu fæla ferðamenn frá.

„Ég held að mikill meirihluti ferðamanna muni fara rétt að og gefa upp hluti sem geta haft hættu í för með sér fyrir lífríkið þegar þeir koma en það var einmitt það sem þessi náungi gerði,“ sagði Watt að sögn SBS News.

„Okkur er alvara með því að halda gin- og klaufaveiki og öðrum sjúkdómum frá landinu og ferðamenn þurfa að muna það ef þeir eru að reyna að komast inn í Ástralíu,“ bætti landbúnaðarráðherrann við.

Að því er segir í frétt SBS News myndi það kosta ástralskt efnahagslíf jafnvirði 11.400 milljarða króna ef gin- og klaufaveikifaraldur brytist út í landinu.