Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, hyggst senda fyrirspurn á borgarlögmann til að kanna hvort yfirstjórn borgarinnar hafi verið heimilt að skipta upp greiðslum borgarinnar til Vinnustofu Kjarvals milli sviða.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær keyptu yfirstjórn og starfsmenn áfengi fyrir rúma hálfa milljón króna á Vinnustofu Kjarvals í gegnum eins árs samning við borgina.

„Tilraunin að semja við Kjarvalsstofu í stað þess að vera með starfsdaga og fundi víða, hefur gengið vel og hefur líklega leitt til sparnaðar fyrir borgina þótt endanlegt uppgjör á því liggi ekki fyrir,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Varðandi áfengiskaup hjá starfsfólki borgarinnar þá eru 500 þúsund hjá tíu skrifstofum og sviðum yfir nánast heilt ár til marks um ábyrgð og hófsemi. Það er eðlilegt í hvaða starfsemi sem er að halda starfsdaga og efla liðsandann. Útgjöld og áfengiskaup þurfa að vera í hófi og það eru þau hjá borginni,“ segir Dagur.

Björn Gíslason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkaupa- og framkvæmdaráði, segir að tilviljun ein hafi ráðið því að kjörnir fulltrúar hafi frétt af samningum.

„Allir samningar borgarinnar sem eru yfir eina milljón króna fara fyrir innkauparáð, þessi samningur er fyrir 1,6 milljónir króna, en þar sem upphæðinni var skipt milli sviðanna þá sjáum við aldrei greiðslurnar,“ segir Björn. „Við fréttum þetta fyrir tilviljun og sendum inn fyrirspurn, þá var þetta búið að vera í gangi í marga mánuði.“

Vigdís Hauksdóttir segir borgina hafa skipt greiðslunum milli sviða til að þurfa ekki að segja frá þessu. Hyggst hún leita svara hjá borgarlögmanni um hvort þetta sé heimilt.

„Það er einn lögaðili sem gerir samninginn, það er borgin, síðan er þessu dreift milli sviða til að þetta lendi aldrei fyrir augum kjörinna fulltrúa. Ég tel víst að þetta sé brot á innkaupareglum. Þetta er óhuggulegt, það gæti verið að það séu, eða hafi verið, fleiri svona samningar í gangi,“ segir Vigdís.

Tveir sviðsstjórar borgarinnar eru ekki með aðgangskort að Vinnustofu Kjarvals. Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, taldi að ekki væri þörf á því.

„Ég taldi ekki þörf á því, velferðarsvið er til dæmis með fjölmargar félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara víða um borgina og við nýtum þær oft fyrir fundi,“ segir Regína.

Ómar Einarsson, sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs, segir það sama eiga við um sig. „Ég taldi að ég, eða ÍTR, hefði ekki þörf fyrir svona þjónustu sem þarna er í boði,“ segir Ómar.

Uppfært 12:45 - Sabine Leskopf, formaður innkaupa- og framkvæmdaráðs, vill koma eftirfarandi athugasemd á framfæri vegna ummæla Björns Gíslasonar.

Í 7. gr í innkaupareglum Reykjavíkurborgar kemur fram að innkaup yfir 1 milljón fara einungis fyrir fagráðin, ekki fyrir innkaupa- og framkvæmdaráðið. 7. gr. er svohljóðandi

Upplýsingagjöf kaupanda til eftirlitsaðila

Ársfjórðungslega skulu yfirmenn sviða og skrifstofa Reykjavíkurborgar senda yfirlit til þess fagráðs sem þau heyra undir. Í yfirlitinu skal gera grein fyrir einstökum innkaupum sem sviðið eða skrifstofan hefur greitt fyrir á undanförnum 12 mánuðum og samanlagðar greiðslur á tímabilinu eru hærri en ein milljón krónur. Fagráð getur vísað ábendingum um einstök innkaup til innkauparáðs. Miðlægar skrifstofur skulu senda slík yfirlit til innkauparáðs. Með sama hætti skulu kaupendur senda innkauparáði yfirlit yfir einstök innkaup sem greitt hefur verið fyrir á undanförnum 12 mánuðum og samanlagðar greiðslur á tímabilinu eru hærri en fimm milljónir króna. Þessi málsgrein gildir ekki um þær miðlægu skrifstofur sem senda yfirlit í samræmi við 1. mgr.