Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar, gagnrýnir ákvörðun stjórnvalda um að halda sóttvarnaraðgerðum óbreyttum við landamærin fram til 15. janúar.

Hann birti færslu á Facebook-síðu sinni vegna málsins.

Þar segir hann ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera mjög dýr efnahagsleg mistök. Staðreyndin sé efnahagsleg áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins verði að minnsta kosti um 26 milljarðar króna.

„Þessi ákvörðun jafngildir því að ríkisstjórnin ákvæði að veiða ekki nema helming loðnukvótans í vetur,“ segir Jóhannes Þór í færslunni.

„Það eina sem hefði þurft að lagfæra í reglugerðinni til að koma í veg fyrir þessi dýru mistök er að hætta að krefja bólusetta erlenda ferðamenn um aukapróf áður en þeir stíga upp í flugvél til Íslands, að láta bólusetningaskírteinið duga. Það dugar öllum öðrum EES löndum,“ segir Jóhannes Þór jafnframt.

Hann segir einnig að í minnisblaði sóttvarnarlæknis, sem ákvörðun heilbrigðisráðherra er byggð á, sé ekki stafkrókur sem rökstyðji áframhaldandi aukakröfur á bólusetta erlenda ferðamenn án tengsla við samfélagið hér á landi.

Ákvörðunin mun hafa áhrif á næsta sumar

Í samtali við Fréttablaðið segir Jóhannes að frá efnahagslegu sjónarmiði er ákvörðun heilbrigðisráðherra mistök.

„Bókunartímabilið hjá erlendum ferðaskrifstofum er frá október fram í janúar. Ferðaskrifstofur eru mjög mikilvægir og stórir söluaðilar fyrir Ísland. Einstaklingar byrja síðan að bóka í stórum hluta í janúar og febrúar fyrir næsta sumar. Þannig þetta er ekki þannig að þetta hafi bara áhrif á þrjá til fjóra mánuði. Því ef eftirspurnin er minni núna þá verða flugsætin einfaldlega færri næsta sumar og minna selt,“ segir Jóhannes.

Um 6,5 milljarðar töpuðust með Jet2 í síðasta mánuði


Í þessu samhengi bendir hann á ferðaskrifstofuna Jet2 sem ákvað í október að færa 25 þúsund flugsæti frá Íslandi en Jet2 hefur verið í gegnum tíðina ferjað breska ferðamenn til landsins.

„Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að þessir 25 þúsund farþegar hoppa ekki bara upp í Wizzair eða annað flugfélag í staðinn því Jet2 er ferðaskrifstofa sem selur ferðirnar og þeir selja þá bara ferðir til Noregs eða Finnlands í staðinn,“ segir Jóhannes. „Þannig við höfum nú þegar tapað 6,5 milljörðum í útflutningstekjur og nú er bara verið að auka það tap með þessari ákvörðun. Það er augljóst og óhrekjanlegt,“ bætir hann við.

Ferðamenn sem koma til landsins eru ekki jafn líklegir til að valda hópsmitum og Íslendingar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Minni smithætta af ferðamönnum

Jóhannes segir minni smithætta af ferðamönnum og vitnar í Ingileif Jónsdóttur, prófessor í ónæmisfræðum við Háskóla Íslands, máli sínu til stuðnings. Hann segir hana hafa sagt að það sé óþarfi að skima erlenda ferðamenn við komuna til landsins því þeir hafi engin tengsl við samfélagið.

„Við eigum að halda áfram að skima þá sem eiga heima hérna, við erum sammála því,“ segir Jóhannes.

„Þarna er því verið að viðhalda kröfum sem eru í trássi við efnahagsleg gögn og sóttvarnarleg gögn sem Þórólfur sjálfur hefur staðfest þegar hann sagði í haust að öll smiti í september bylgjunni mætti rekja til Íslendinga eð fólks með tengsl við samfélagið. Þannig landamærasmitin sem hafa verið dreifast um samfélagið þau koma frá okkur Íslendingum sem erum að koma heim en ekki frá erlendum ferðamönnum,“ segir Jóhannes.

Í færslunni leggur Jóhannes Þór til tvær aðgerðir við landamærin:

  • Höldum áfram að krefjast skimunar og sóttkvíar fyrir óbólusetta farþega.
  • Hættum að krefja bólusetta ferðamenn án tengsla við samfélagið um aukapróf sem engin önnur ríki innan EES gera.

„ Það er á ábyrgð stjórnvalda að ákvarðanir um ferðatakmarkanir sem hafa bein efnahagsleg áhrif séu teknar á grundvelli þess að stjórnvöld vegi og meti bæði sóttvarnaleg rök og efnahagsleg rök. Ég lýsi því eftir efnahagslegum forsendum ákvörðunar ríkisstjórnarinnar fyrir þessari ákvörðun,“ segir Jóhannes Þór í lok færslunnar.