Óvenju mikið svifryk hefur mælst í Reykjavík síðustu sólarhringa og fór það yfir sólarhrings heilsuverndarmörk í gær. Í þetta sinn er umferðarþunga ekki um að kenna heldur skýringin óhagstæðar vindáttir og þurrkar sem færa ryk af hálendinu og Suðurlandi yfir höfuðborgarsvæðið.

Svifryksmælar í Reykjavík byrjuðu að greina hækkandi gildi í fyrradag og toppuðu í gær þegar svifryk mældist yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra sem eru sólarhrings heilsuverndarmörkin í öllum mælistöðvum borgarinnar. Þá mældist svifryk mjög hátt núna í morgun áður en rigning varð til þess að magn færðist í eðlilegt horf.

Strókur yfir Reykjavík

„Frá miðnætti í nótt og fram undir morgun þá var þetta mjög hátt þegar strókurinn lá yfir höfuðborgarsvæðinu,“ segir Svava Svanborg Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við Fréttablaðið.

Hæsta gildið mældist í Vesturbænum þegar 213,8 míkrógrömm á rúmmetra mældust við Vesturbæjarlaugina í gær.

„Við erum ekki vön að sjá svona tölur inn í íbúðahverfum og þetta líka segir okkur strax að uppruninn er eitthvað annað heldur en umferð.“

Mjög óvanalegt sé að sjá svo háar tölur fjarri stórum umferðaræðum en að stór rykstrókur hafi þarna tekið beina stefnu yfir Vesturbæinn eftir viðkomu í Hvalfirðinum.

Hér sést vel á eldri mynd hvernig sólarljós á til að speglast í miklu svifryki.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Mælt með að viðkvæmir einstaklingar haldi sig inni

„Það er voða lítið sem er hægt að gera í þessu nema að benda fólki á að vera ekki að reyna mikið á sig utandyra þegar það er svona mikið ryk í loftinu,“ bætir hún við.

Þá eru börn og þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum beðnir um að forðast útivist í lengri tíma.

„Það er búið að vera mikið rok upp á hálendi og Suðurlandi og búið að vera þurrt í svolítinn tíma og þá er algengt að það fari að rjúka þar upp. Það eru grunn vötn á hálendinu sem þorna þegar fer að hausta og þá rjúka oft upp þessir botnar og farvegir. Svo er nóg af sandi á Suðurlandinu. Þegar veðuraðstæður eru svona þá getur strókurinn stundum bara komið hingað til okkur í Reykjavík.“

Rykið sérstaklega sýnilegt í gærmorgun

Þá segir Svava að rykið hafi átt sinn þátt í því að íbúar höfuðborgarsvæðisins sáu ljómandi himinn í gærmorgun og fyrradag. Rauðleitur himinninn sé birtingarmynd þess hvernig sólarljósið speglist á rykögnunum í loftinu.

„Þá var þetta hreinlega sýnilegt við sjóndeildarhringinn þegar rykið var að koma og þessi fallegi morgunn blasti við okkur. Hann var svona fallegur meðal annars út af rykinu sem var í andrúmsloftinu.“