CBD-húðvörur fyrirtækisins Atomos.is voru haldlagðar á Keflavíkurflugvelli í mars og hafa verið sendar fram og til baka milli lögregluembætta síðan. Eigendurnir fá þær upplýsingar að beðið sé eftir efnagreiningu en handahóf ræður því hvaða CBD-vörur eru teknar í tollinum og sendar til lögreglu.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvenær síðasti söludagur er, en er nánast viss um að hann sé liðinn eða að nálgast það fljótt,“ segir Unnar Þór Sæmundsson, einn eigenda Atomos.is. Fyrirtækið var stofnað árið 2019 og hannar vörur í samstarfi við Valeocare í Þýskalandi. Vörurnar eru vottaðar af Evrópusambandinu og eru í snyrtivöruvefgátt þess. Í febrúar árið 2020 gerði Umhverfisstofnun úttekt á vörunum og gerði aðeins aðfinnslur við merkingar á umbúðum.

Unnar telur söluverðmætið hafa verið nálægt tveimur milljónum króna. Fyrirtækið hafi þó skaðast um tugmilljónir þar sem eigendurnir hafa ekki þorað að panta meira á meðan mál þeirra er í gangi. „Við viljum að þetta mál verði klárað svo við getum komið fyrirtækinu aftur af stað. Við erum búnir að leggja mikið á okkur til að koma því á fót,“ segir hann.

Unnar Þór Sæmundsson eigandi Atomos.is
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Hægt er að kaupa CBD-olíur og krem í flestum apótekum og stórmörkuðum auk þess sem sprottið hafa upp netverslanir sem selja vörurnar. Í mjög mörgum CBD-vörum er THC í snefilmagni, undir 0,2 prósentum, og langt frá því að valda vímu. Samkvæmt fyrirspurn Fréttablaðsins til tollstjóra eru sendingar prófaðar af handahófi og ef eitthvað THC mælist eru vörur haldlagðar og sendar til lögreglu til frekari efnagreiningar. Skiptir þá ekki máli hvort vörurnar séu vottaðar eða teknar út af Umhverfisstofnun.

Til að byrja með fengu Unnar og félagar þau svör að tafir hefðu orðið á efnagreiningu og vinnslu vegna faraldursins og sýndu þolinmæði.

Í nóvember var málið sent til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en engin efnagreining hefur farið fram. Það síðasta sem þeir vissu var að málið væri aftur komið til Lögreglunnar á Suðurnesjum en lögmanni Atomos.is hefur reynst sífellt erfiðara að fá svör. Hefur Félag atvinnurekenda einnig beitt sér fyrir hönd fyrirtækisins.

Ýmislegt hefur gerst í málefnum CBD og iðnaðarhamps síðan málið hófst. Í sumar var veitt undanþága til ræktunar iðnaðarhamps og í nóvember úrskurðaði Evrópudómstóllinn að CBD-vörur með THC-gildi undir 0,2 prósentum væru ekki fíkniefni.

„Ég á löglega 200 þúsund hampfræ sem ræktuð innihalda meira THC en allar vörurnar mínar til samans,“ segir Unnar. Hann segir mál Atomos.is ekki einsdæmi því fleiri innflytjendur hafi lent í haldlagningu án niðurstöðu.