Margt gott er ættað frá Frakklandi eins og fransbrauð og kampavín en líka „dagur nágranna“, eða „la Fête des Voisins“ en Frakkar hafa haldið upp á hann síðustu tvo áratugi. Siðurinn hefur breiðst út og nú taka yfir 50 lönd þátt. Nágrannadeginum var fyrst fagnað í París á vormánuðum 1999 og nú styrkja nágrannar böndin í lok maí árlega. Alls tóku yfir 30 milljónir manna þátt í síðasta nágrannadegi þann 25. maí, þar af 10 milljónir í Frakklandi.

Alls tóku 1.390 ráðhús og húsfélög þátt í viðburðinum í Frakklandi þannig að fólk fær ákveðinn stuðning til að halda gleðskap. Til dæmis er hægt að fá boðskort og plaköt til að láta fólk vita af viðburðinum en það fer algjörlega eftir einstaklingnum hvar og hvernig veislan fer fram.

Frakkar og aðrir Evrópubúar eru vanari en Íslendingar að nota almannarými og garða við fjölbýlishús til að gleðjast saman en það er ekkert því til fyrirstöðu að góðir grannar geri það sama hér. Tilgangurinn er ekki síst að rjúfa einangrun fólks og styrkja félagsleg tengsl.


Næsti nágrannadagur verður föstudaginn 29. maí árið 2020 og honum gætu íslenskir nágrannar fagnað með því að brjóta fransbrauð (með spennandi ostum og áleggi) og drekka kampavín með. Nú eða bara með því að grilla pylsur og drekka gos í sameiginlega garðinum við blokkina eða á næsta torgi eða leikvelli.