Á Gumma Ben bar býðst þeim sem á þurfa að halda að koma í ókeypis jóla­mat klukkan sex á að­fangadag. Einar Karl, einn af að­stand­endum við­burðarins, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að vantað hafi að þeir sem þurfi á aðstoð að halda eða séu einir yfir jólin, geti komið saman og haldið jól á hefðbundnum tíma. Hann segir að nú þegar séu á bilinu fjöru­tíu til fimm­tíu búnir að skrá sig, en sjö­tíu pláss eru í boði. Engum verður þó vísað frá.

Allir velkomnir

Við­burðurinn er ekki bara fyrir heimilis­lausa og fá­tæka, heldur einnig þá sem eru ein­mana eða af ein­hverjum ástæðum einir um jólin. Hann nefnir sem dæmi að náms­menn utan af landi, sem þurfi að vinna um jólin, og hafi ætlað að vera einir um jólin geti komið til þeirra. „Þetta er í raun opið fyrir alla. Ég er ekki að spyrja um bak­grunn fólks,“ segir Einar Karl.„Við erum með skráningu svo að við séum með nægan mat.“

Skipuleggjendurnir ákváðu að auglýsa viðburðinn á Facebook þar sem fólk sem vill mæta skráir sig ekki endilega sjálft. Með þessum hætti geti þeir sem þekki fólk sem þarf á aðstoð að halda að skrá það í matinn eða hvatt það til að skrá sig.

Á bilinu fjöru­tíu til fimm­tíu manns hafa þegar skráð sig í matinn og ekki séu margir þeirra sem hafa skráð sig með börn. Sjö­tíu sæti eru í boði en allt verður gert til þess að ekki þurfi að vísa neinum frá. Ef á þurfi að halda verði maturinn tví­skiptur svo að allir geti fengið að koma og borða.

Ótrúlegur velvilji

Einar Karl tekur fram að hann sjái ekki einn um skipu­leggja við­burðinn. „Þetta er í raun og veru starfs­fólk hér og líka bara fólk sem hefur sent mér skila­boð á netinu og sagt: „Hey, ég get unnið á að­fanga­dag. Vantar þig að­stoð?“ “

Nú þegar hafa hátt í hundrað manns haft sam­band og boðist til að að­stoða og tíu fyrir­tæki. „Við erum búin að fá eigin­lega allt sem okkur sem styrk eða gefins frá fyrir­tækjum.“ Skipu­leggj­endurnir á­kváðu strax í byrjun að allir sem kæmu fengju jóla­gjöf og margir ein­staklingar hafi boðist til þess að gefa pakka. „Vel­vilji ein­stak­linga hefur verið ó­trú­legur,“ segir Einar.

Að sögn Einars á­kváðu skipu­leggj­endurnir að aug­lýsa við­burðinn á Face­book því að þau viti að fólkið sem þarf á þessu að halda skrái sig ekki endi­lega sjálft. Hann hvetur þá sem þekkja ein­hvern sem þarf á að­stoð sem þessari að halda um jólin til þess að skrá þá eða benda fólki þeim á að skrá sig.

Hefðbundinn íslenskur jólamatur

Maturinn verður hefð­bundinn ís­lenskur jóla­matur en boðið verður upp á léttan for­rétt, hangi­kjöt með upp­stúf í aðal­rétt og ís í eftir­rétt og eins og áður segir munu allir sem koma fá jóla­gjöf.

Skráning í matinn fer fram í gegnum netfangið jolamatur2019@gmail.com og hægt er fræðast betur um viðburðinn á Facebook-síðu hans, Jólin 2019- hátíð allra.