Mótmæli sem hófust við Austurvöll klukkan þrjú í dag halda nú áfram við lögreglustöðina við Hverfisgötu. Mótmælendur krefjast þess að tveimur úr hópi þeirra, sem handtekin voru síðdegis í dag, verði sleppt úr haldi. Íslensk kona á þrítugsaldri og flóttamaður eru í haldi lögreglu, samkvæmt upplýsingum frá mótmælendum. 

Sjá einnig: Lög­regla beitti pipar­úða gegn mót­mælendum

Greint var frá því fyrr í dag að hiti hefði færst í mótmælin á sjötta tímanum og lögregla hefði beitt piparúða gegn mótmælendum. Á myndskeiði, sem farið hefur víða um netheimana, má sjá hvernig mótmælendur kveinka sér undan piparúðanum og hvernig lögregla gerir pappaspjöld þeirra upptæk. 

Benjamín Julian, einn mótmælenda, segir í samtali við Fréttablaðið að til hafi staðið að hópurinn svæfi á Austurvelli í nótt. Lögregla kom hins vegar í veg fyrir að sett væru upp tjöld fyrir framan Alþingi. 

Benjamín segir hópinn hafa verið með pappaspjöld meðferðis sem mótmælendur ætluðu sitja á, vegna kuldans. „Þau ætluðu að gista þarna í nótt, en svo réðst lögregla gegn hópnum, kippti pappaspjöldunum af fólki og rykktu aðeins þau. Að lokum handtóku þau tvo úr hópnum.“

Nú krefjist mótmælendur þess að þeim sem eru í haldi lögreglu verði sleppt, enda hafi þau ekkert sér til sakar unnið að sögn Benjamíns.

Sjá einnig: „Þetta er ekkert líf“

„Þau gerðu ekki neitt af sér, í raun var það lögreglan sem braut af sér og fór að spreyja piparúða yfir alla. Ég held það hafi gert hópin frekar pirraðan og vondapran,“ segir hann.

Sjá einnig: Sökkva dýpra í depurð ef ekki er gripið inn í

Ekki náðist í lögreglu við gerð þessarar fréttar.