Bæjarstjórn Akureyrar klofnaði þegar bann við lausagöngu katta var samþykkt á þriðjudag. Lausaganga hefur verið mikið hitamál í bæjarmálaumræðunni á Akureyri undanfarin misseri líkt og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Eru kettir sakaðir um að fara inn til fólks, klóra, drepa fugla og skíta í garða og sandkassa.

Lausaganga hefur meðal annars verið rædd í bæjarstjórnum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Grindavíkur nýlega. Í Reykjanesbæ var ákveðið að banna ekki lausagöngu.

Köttur í ævintýraferð á Akureyri í gær
Fréttablaðið/auðunn

Lausaganga hefur verið bönnuð á Húsavík í meira en áratug og er einnig bönnuð í Hrísey, Grímsey og á Reykhólum. Í Fjallabyggð er hún bönnuð á varptíma og kettir verða að hafa bjöllu á öðrum tímum.

Hafnfirðingurinn Guðný María Waage flutti til Húsavíkur fyrir þremur árum síðan með tólf ára útiköttinn Vin sem þurfti að aðlagast lausagöngubanninu. „Hann var að gera okkur brjáluð í inniverunni þannig að ég hannaði búr sem maðurinn minn smíðaði,“ segir Guðný.

Vinur getur komist sjálfur út í búrið og notið útiverunnar. „Hann elskar þetta,“ segir Guðný en fjölskyldan hefur síðan fengið annan kött sem deilir búrinu með Vini.

Annar köttur að nýta tímann sem frjáls köttur á götum Akureyrarbæjar í gær
Fréttablaðið/auðunn

Bannið á Akureyri tekur gildi þann 1. janúar árið 2025 og hafa bæjarbúar, og kettir þeirra, aðlögunartíma að banninu. Til dæmis geta þeir nýtt lausn Guðnýjar sem fyrirmynd.

„Mér finnst þetta fínt,“ segir Guðný spurð um lausagöngubannið á Húsavík.

„Ég veit alltaf hvar þeir eru, þeir eru ekki að slasa sig og það er ekki verið að eitra fyrir þeim.“