Stjörnuáhugamenn hafa verið í skýjunum síðustu daga þar sem halastjarnan NEOWISE er nú í augnsýn frá jörðu. Um er að ræða eina björtustu halastjörnu sem hefur sést frá jörðinni í yfir áratug.

„Núna þegar orðið er nægilega dimmt hjá okkur þá ætti hún að sjást dauflega með berum augum á norðausturhimni,“ segir Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, í samtali við Fréttablaðið.

„Hún er ekki eins björt og áberandi með berum augum líkt og hún sýnist vera á myndum en ætti engu að síður að sjást.“ Mögulegt er að fólk þurfi að leita aðeins til að koma auga á halastjörnuna.

Ráðleggingar fyrir áhugasama

„Það þarf að horfa norður eða norðaustur svona yfir dimmasta tíma næturinnar, sem er núna í kringum eittleytið, þá ætti hún að vera frekar lágt á lofti.“ Best sé að nýta handsjónauka til að sjá stjörnuna betur þegar búið er að finna hana á himninum.

„Hún er langt í burtu frá jörðinni þannig að hún er ekki mjög eftirtektarverð og hún dofnar væntanlega þegar líður á mánuðinn, sem er ver og miður af því að þá eykst dimman hjá okkur.“ Landsmenn verði því bara að njóta heimsóknarinnar í sumarnæturbirtunni.

Sævar Helgi hlakkar til að koma auga á halastjörnuna.
Fréttablaðið/Ernir

Sjaldséður gestur

NEOWISE hefur er ekki verið í nágrenni jarðar í um 6800 ár en hún var nýlega uppgötvuð af gervitungli NASA. „NEOWISE er bara skammstöfun á gervitunglinu sem fann stjörnuna í mars síðastliðinn,“ segi Sævar.

„Þetta er langferðahalastjarna sem er í raun ísjaki að detta í kringum sólina en hún var næst sólu núna þriðja júlí síðastliðinn og verður nálægt jörðinni til 12. júlí næstkomandi.“ Eftir helgina gæti orðið erfiðara að sjá stjörnuna með berum augum en hún verður þó í námunda við jörðina fram í ágúst.

Hægt að sjá hana aftur árið 6520

Gert er ráð fyrir að sporbraut halastjörnunnar breytist og fari frá því að vera 6800 ár í 4500 ár. „Einhverjir heppnir geta eflaust séð hana þegar hún snýr aftur á himininn árið 6520, í bili er þó um að gera að reyna að líta eftir henni núna.“

Sjálfur hefur Sævar enn ekki séð halastjörnuna en hyggst þó leita hana uppi. „Ég er að bíða eftir heppilegu veðri til að koma auga á hana, það verður vonandi gluggi á næstu dögum.“