„Þeir voru að hóta að loka Instagramaðganginum okkar nema við gefum upplýsingar um viðskiptavini okkar,“ segir Jón Þór Ágústsson, einn eigenda kynlífstækjaverslunarinnar Lovísu.

„Þessi gæi reynir greinilega að finna veika hlekkinn, eitthvað sem er ekki séns að fólk sé tilbúið að gefa frá sér. Það er hundrað og fimmtíu prósent trúnaður milli okkar og viðskiptavina í þessum bransa og það er engin séns að við gefum það upp. Ég sagði við hann að hann gæti í raun og veru bara gleymt hugmyndinni,“ segir Jón Þór um samskiptin áðan við hakkarann kingsanchezx sem þegar hefur lokað nokkrum Instagram-reikningum Íslendinga.

Fram kemur í sendingu frá hakkaranum að hann muni loka Instagram-reikningnum ef ekki verði orðið við kröfum hans.

„Gefðu mér ástæðu fyrir því að ég ætti ekki að loka reikningnum ykkar,“ segir í skilaboðum frá kingsanchezx. „Ef þú svara mér ekki eða blokkar mig mun ég loka reikningnum“ bætir hann við.

Jón Þór bregst við og kallar hakkarann dóna enda hafi hann hótað að loka á Instagram-reikninginn. „Ég þarf að fá eitthvað frá þér,“ ítrekar kingsanchezx þá.

„Og hvað ætti það að vera,“ spyr Jón Þór á móti.

„Einhver hefur pantað eitthvað frá þér og ef þú lætur mig hafa þau samskipti læt ég reikninginn í friði. Og ég get hakkað hvaða reikning sem er,“ undirstrikar kingsanchezx

„Það er ekki að fara að gerast,“ svarar Jón Þór þá og bíður nú þess sem verða vill.

„Við ætlum einhvern veginn að reyna að bjarga þessum Instagram-aðgangi en ef við þurfum að gefa einhverjar upplýsingar um viðskiptavini okkar þá má þessi aðgangur bara fljúga.“