Ísraelsk vef­út­sending af fyrri undan­riðli Euro­vision í gær­kvöldi var hökkuð og sýndi hún þess vegna gervi­sprengingar Tel Aviv borginni, en þetta kemur fram á vef BBC.

Ísraelska ríkis­út­varpið KAN greindi frá því að tölvu­á­rásin væri á vegum Hamas sam­takanna en sam­tökin hafa ekki tjáð sig um á­rásina. Mynd­skeið birtist í út­sendingunni þar sem á­horf­endur voru varaðir við árás á borgina, sem sýndi tölvu­gert mynd­band af sprengingum og hljóð í loft­varnar­flautum.

Þá hafði merki ísraelska hersins verið komið fyrir í út­sendingunni og fylgdi jafn­framt við­vörun þar sem fólk var varað við eld­flauga­á­rás og beðið um að leita sér skjóls. Mynd­skeiðið sýndi jafn­framt svæið í kringum Expo Euro­vision höllina springa og birtist textinn „Ísrael er ekki öruggt. Þið munið sjá“ á skjánum.

Tals­menn KAN gerðu lítið úr mynd­skeiðinu sem sýnt var í rúmar 10 mínútur áður en út­sendingin var stöðvuð. „Við vitum að á á­kveðnum tíma­punkti var til­raun gerð, að því er virðist af Hamas, að hafa á­hrif á net­út­sendinguna okkar, en okkur tókst hins­vegar að ná tök á á­standinu innan ör­fárra mínútna,“ segir fram­kvæmda­stjórinn Eldad Koblenz.

Mikil spenna hefur verið í kringum landa­mæri Ísraels og Gaza svæðisins að undan­förnu en fyrr í mánuðinum var rúm­lega 700 eld­flaugum skotið yfir ísraelsku landa­mærin af Hamas liðum á meðan ísraelski herinn fram­kvæmdi loft­á­rásir á tugi staða á ströndinni í hefndar­skyni.