Bene­dikt Rúnar Guð­munds­son, lands­liðs­þjálfari kvenna í körfu­bolta, var hakkaður á Insta­gram og birtar myndir sem gáfu til kynna að hann væri haldinn kven­fyrir­litningu.

Bene­dikt birti í gær­kvöldi langa færslu á Face­book-síðu sinni í til­efni fréttar sem birtist um málið. Hann segir frá því að það sé ekki svo langt síðan hann byrjaði á Insta­gram og hann hafi stundað það þar að setja inn svo­kallaðar „memes“ í „story“ á Insta­gram og það hafi létt honum mikið lundina í gegnum Co­vid. Hann segir að fyrst hafi hann ekki alveg skilið um hvað myndirnar snerust en eftir því sem á leið hafi hann byrjað að senda slíkar myndir á hóp af fólki.

Markmiðið að áframsenda húmor

„Síðan Co­vid skall á hef ég sent ca 300 memes. Flest voru tengd Co­vid, ein­hver voru skot á sjálfan mig, ein­hver skot á karl­menn, ein­hver skot á konur og önnur skot á hitt og þetta. Ekkert af þeim átti að vera móðgandi né sýndi hold á hvorki karl- eða kven­manni. Mark­miðið var bara að á­fram­senda húmor og létta fólki lundina,“ segir Bene­dikt sjálfur.

Hann segir að á einum tíma­punkti hafi hann þó fengið skila­boð frá fyrir­liða kvenna­lands­liðsins sem inni­hélt um sjö til átta „memes“ af þessum rúm­lega 200 sem hann hafði sent. Hún hafði fengið það sent og þá var búið að sjóða saman þessi sjö til átta og segir Bene­dikt að þegar það hafi verið gert hafi verið vel skiljan­legt að hún hefði á­hyggjur.

„… meðal annars af því hvort ég væri haldinn kven­fyrir­litningu og stundaði það að skjóta á konur í frí­tíma mínum. Það sem var verst var að 1-2 voru á gráu svæði að mínu mati en ég hafði aldrei séð þau áður. Samt var eins og ég hefði sent þau frá mér. Það var hrika­leg upp­lifun að sjá eitt­hvað, sem ég vissi að ég myndi aldrei senda frá mér en samt eins og ég hefði sent það. Ég var farinn að efast um sjálfan mig og farinn að velta fyrir mér hvort ég væri búinn að tapa glórunni,“ segir Bene­dikt.

Benedikt fundaði með landsliðinu og forsvarsmönnum KKÍ um málið. Á myndinni með honum er Hannes S. Jónsson en hann er formaður KKÍ.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kærði brotið

Hann segir að í kjöl­farið hafi hann leitað til lög­reglunnar og þar komist að því að ein­hver hafi brotist inn í reikninginn hans og sent þessi skila­boð þannig.

„Ég get ekki lýst því hversu mikil von­brigði það voru að komast að því. Að ein­hver leggi slíkt á sig til að koma höggi á mann brýtur mann niður. Eftir mörg ár í mínum bransa hefur maður þurft að taka marga slagi og verið um­deildur að sama skapi. En þarna upp­lifði ég eins og ein­hver vildi mér mjög illt,“ segir Bene­dikt.

Hann lagði svo inn kæru og var kallaður á fund stuttu síðar. Áður en kom að þeim fundi fær hann þó sím­tal frá mann­eskjunni sem hafði tekið þessi „memes“ saman og sent á fyrir­liðann. Hann segir að hann ætli ekki að gefa það upp hver það er og að hann hafi fellt kæruna niður eftir að aðilinn baðst af­sökunar.

Hann átti síðar sam­tal við alla leik­menn lands­liðsins og fór yfir málið með þeim auk for­svars­manna KKÍ.

„Þar var mér tjáð að málinu væri lokið og fyrir­liði liðsins lætur mig vita að leik­menn séu sáttir og við tókum góða æfinga­helgi. Síðan þá erum við búin að æfa mörgum sinnum saman og spila marga lands­leiki þar sem það eru ca 14 mánuðir síðan,“ segir Bene­dikt en bætir við að í til­efni fréttarinnar sem birtist um málið ætli hann að leggja öll spilin á borðið og birta öll 300 „memes“ sem hann hefur sent.

Færslu Bene­dikts er hægt að lesa í heild sinni hér að neðan.