Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, segir að hann sé reiðubúinn til að gefa sig fram við lögreglu ásamt hinum hákörlunum James Hatuikulipi og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi og manni að nafni Pius Natangwe Mwatelulo.

Þetta staðfestir Appolos Shimakeleni, lögfræðingur fjögurra mannanna sem eru eftirlýstir vegna mútugreiðslna og spillingu í tengslum við Samherjaskjölin.

Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, var í síðustu viku handtekinn en látinn laus úr varðhaldi á sunnudag.

James Hatuiku­lipi sagði af sér sem stjórnar­for­maður ríkis­út­gerðar­fé­lagsins Fischor fyrir nokkru. Tam­son „Fitty“ Hatuiku­lipi er tengda­sonur fyrrverandi sjávarútvegsráðherrans Bernhard Esau og frændi James.

Lögfræðingurinn spurðist fyrir um hvort þeir væru enn eftirlýstir og bað um skriflega tilskipun um handtöku svo þeir geti gefið sig fram að því er fram kemur í á namibíska fréttamiðlinum New Era.

Á morgun fara fram forseta- og þingkosningar í Namibíu. Hage Geingob, for­seti lands­ins og leiðtogi SWAPO-flokksins, býður sig fram á ný. Hann sagði á Twitter fyrir nokkru að Íslendingar ættu að rannsaka spillingu í eigin landi.