Ný rann­sókn hefur leitt í ljós að nokkrar tegundir af gælu­dýra­fóðri inni­halda há­karla í út­rýmingar­hættu. Há­karlar eru sjaldnast merktir í inni­halds­lýsingum en sum vöru­merki eru með ó­ná­kvæmar merkingar á borð við „fiskar“, „sjávar­fiskar“, „hvít beita“ eða „hvítur fiskur“. Í sumum inni­halds­lýsingum kemur ekki einu sinni fram að varan inni­haldi sjávar­fang.

Rann­sak­endur gerðu DNA mælingar á 45 vörum frá sex­tán fram­leið­endum í Singa­púr. Af 144 mældum sýnum fannst erfða­efni há­karla í rúmum þriðjungi þeirra, 45 sýnum.

Al­gengustu há­karla­tegundirnar sem fundust í fæðinu voru blá­háfur, silki­háfur og kóral-hvítuggi (e. whitetip reef shark). Seinni tveir eru skráðir í hættu á rauða lista Al­þjóð­legu náttúru­verndar­sam­takanna. Fleiri tegundir sem skráðar eru í hættu fundust einnig í minna mæli.

Höfundar rann­sóknarinnar segja ekki víst hvað niður­stöðurnar geti sagt okkur um sölu á há­karla­kjöti. Annars vegar gæti verið að nýta lík há­karla sem hafa verið veiddir sér­stak­lega fyrir uggana en hins vegar gætu niður­stöðurnar endur­speglað aukna sölu á há­karla­kjöti.

Taka óafvitandi þátt í ofveiði á hákarli

Við­skipti með há­kar­laugga hefur mikið verið rætt en há­karla­af­urðir finnast víðar í hvers­dags­vörum, til dæmis gælu­dýra­fóðri en einnig í ein­hverjum snyrti­vörum. Aðrar rann­sóknir hafa jafn­vel fundið há­karl­skjöt í mat ætluðum mann­fólki.

Kóral-hvítuggar búa gjarnan í kóralrifjum í Indlandshafi og Kyrrahafi. Þeir eru taldið í hættu en voru eitt af algengustu hákörlunum sem fundust í gæludýrafóðri.
Fréttablaðið/Getty

„Meiri­hluti gælu­dýra­eig­enda eru lík­lega náttúru­unn­endur og við höldum að flestir myndu vera slegnir að vita að þeir gætu óaf­vitandi verið að taka þátt í of­veiði á há­karli,“ segja höfundar rann­sóknarinnar, Benja­min Wa­in­rig­ht og Ian French, í samtali við The Guar­dian.

Há­karla­stofnar hafa dregist saman um rúm­lega sjö­tíu prósent síðustu fimm­tíu ár, að miklum hluta vegna of­veiði, með tilheyrandi slæmum á­hrifum fyrir vist­kerfið.

Sam­kvæmt vist­fræði­prófessornum Andrew Griffit­hs gera slakar reglu­gerðir um inni­halds­lýsingar á gælu­dýra­fóðri fram­leið­endum kleift að gefa ekki upp ná­kvæm­lega hvaða fiskar eru í fóðrinu. Há­karl­skjöt sé til­tölu­lega ó­dýrt og því geti það borgað sig fyrir fram­leið­endur að nota það fyrir prótein.

Rann­sóknin var birt í ritinu Fronti­ers in Marine Science.