Hagsmunasamtök heimilanna skora á ríkisstjórnina til að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu þess efnis að tryggt verði að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Ljóst sé að mörg heimili standi frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum á næstu mánuðum þegar greiðslubyrði lána muni hækka um tugi þúsunda.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
Í tilkynningunni segir að samtökin hafi kallað eftir vernd fyrir heimilin frá upphafi heimsfaraldurs, en þrátt fyrir það hafi ríkisstjórnin í lok síðustu viku tekið ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfi að greiða af húsnæðislánum. Þá séu vaxtahækkanir látnar falla af fullum þunga á heimili landsins.
„Við biðjum ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir að þær fjölskyldur sem ekki geta staðið undir hækkandi greiðslubyrði komandi mánaða muni ekki missa heimili sín, heldur verði leitað allra leiða til að hjálpa þeim út úr þessum tímabundnu erfiðleikum svo þær geti risið á ný þegar aftur sér til sólar,“ segir í tilkynningunni.
Þá minna samtökin á að ef Ísland eigi að vera land tækifæranna verði að gefa heimilunum tækifæri til að dafna. „Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið,“ segir í tilkynningunni.