Forsætisráðherra sat fyrir svörum Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um Samherjamálið og gagnrýni norska fjármálaeftirlitsins á innra eftirliti DNB í tengslum við peningaþvætti á þingfundi í dag.

Benti Logi á að málið þykir mjög alvarlegt í Noregi og þungur áfellisdómur yfir þeirra helstu fjármálastofnun og spurði forsætisráðherra hvort embætti héraðssaksóknari, sem hefur Samherja-málið til rannsóknar, hafi nægilegar fjárheimildir og bolmagn.

„Er fjármálaeftirlitið hér á landi nægja vel fjármagnað til að standa í sambærilegum athugunum og það norska og hefur verið gengið úr skugga um að íslenskir bankar hafi ekki verið seldir undir sams konar áhættu og nú er að afhjúpast í Noregi?“ spurði Logi.

Logi Einarsson, formaður og þingmaður Samfylkingarinnar.

Telur eftirlit betra eftir sameiningu

Katrín Jakobsdóttir sagði nýlega sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hafa orðið til að styrkja þessar stofnanir og gera þeim betur kleift að takast á við eftirlitshlutverk sitt.

„Það myndi í raun og veru styrkja betur ekki bara hefðbundið fjármálaeftirlit heldur líka annars konar eftirlitsverkefni eins og hafa verið nefnd í tengslum við Samherja, og er ég þá að vitna til gjaldeyriseftirlitsins, að hafa þarna sterka stofnun á þessu sviði. Þannig að ég tel að ýmislegt hafi verið gert og ég tel að þessi sameining hafi verið til að styrkja hið mikilvæga eftirlitshlutverk sem um ræðir,“ sagði Katrín.

Aðspurð sagði forsætisráðherra að héraðssaksóknara yrðu tryggðar þær fjárheimildir til að ljúka rannsókn sinni á Samherja.

Beita sér óhóflega fyrir ýmsum málum

Vék þá málinu að athugasemdum Seðlabankastjóra um að Ísland sé að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum. Katrín sagðist ekki geta tekið undir með orðum Ásgeirs Jónssonar, hún gæti ekki trúað því að þingflokkarnir létu stjórnast af hagsmunaöflum.

„Þegar sagt er að landinu sé stjórnað af hagsmunaöflum þá er væntanlega verið að segja það að stjórnmálaflokkarnir hér séu allir undir stjórn hagsmunaafla. Ég fellst ekki á það,“ sagði hún en bætti við:

„En ég veit hins vegar, alveg eins og háttvirtur þingmaður veit það vel, að hagsmunaöfl reyni á mjög oft að beita sér óhóflega fyrir ýmsum breytingum og málum. Þess vegna hef ég beitt mér fyrir því og fengið samþykkt hér á Alþingi, meðal annars lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum, af því að mér finnst svo mikilvægt að við tryggjum aukið gagnsæi um þessi mál.“