Miklu hagléli rigndi í Alberta-fylki Kanada á mánudag og olli miklum skemmdum, til að mynda á bílum.

Athygli vekur að sjálf höglin voru gríðarlega stór, og hefur þeim verið líkt við hafnabolta og appelsínur.

Samkvæmt kanadíska ríkissjónvarpinu olli óveðrið í fylkinu skemmdum á um það bil sjötíu bílum.

Þá þurfti lögregla að hjálpa fólki úr skemmdum bílum í skjól. Fram kemur að ekki sé vitað til þess að fólk hafi slasast vegna haglélsins.

Fjöldi fólks hefur deilt myndefni frá vettvangi á samfélagsmiðla sem sýna skemmdirnar og stærð haglanna.