„Það er mikill árangur af því sem fyrirtæki gera hjá META, facebook og Instagram. Þá gera fyrirtæki meira af því. Ég tala nú ekki um ef þau eru að fara út fyrir landsteinana,“ segir Þóranna Kristín Jónsdóttir hjá Entravision, sem þjónustar fyrirtæki sem vilja auglýsa á stórum samfélagsmiðlum sem taka æ stærri part af auglýsingamarkaðnum.

Að sögn Þórönnu Kristínar er auglýsing á samfélagsmiðlum miklu hagkvæmari leið fyrir íslensk fyrirtæki til að herja á erlendan markað, og margfalt árangursríkari en að fara í hefðbundnari miðla. „Því stærri sem markaðurinn er, því dýrara er að ná til fólks,“ segir Þóranna.

Aðspurð hvort að stór íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu séu að nýta sér þessa tækni, svarar hún:

„Já, þetta er brilliant fyrir ferðaþjónustuna, það er ekki spurning. Það að ná til réttu aðilanna á réttan hátt, það er svo sterkt samtal sem getur orðið. Við sýnum þeim Bláa lónið og fossana okkar og allt fíneríið sem við höfum, það er nóg að sýna þeim.“

Þóranna svarar játandi, að þær auglýsingar sem fólk sjái séu þá sérsniðnar að notandanum.

„Það á við um stafrænar auglýsingar yfirhöfuð. Þegar við erum komin inn á Facebook og Instagram, þá er það eins og að koma inn á heimili hjá einhverjum. Þeir fylgjast með lækum og hverju við deilum, og svona. Hvað við horfum á vídjóin lengi. Við höfum áhuga ef við horfum á allt vídjóið,“ útskýrir hún.

„Þau geta þá bent okkur á það sem við höfum áhuga á. Það væri hundleiðinlegt að vera endalaust að fá eitthvað sem á engan veginn við. Þetta er ekkert rosa fullkomið í rauninni. Ég var að naglalakka mig og var að skoða eitthvað fínerí á neglurnar, og þá fær maðurinn minn naglalakks-auglýsingar.“

Hún segir löggjöfina í kringum slíkar auglýsingar strangar hér á landi.

„Það er mjög ströng löggjöf. Við vorum á fundi í dag og við vorum að ræða hvernig við ætlum að láta íslensk fyrirtæki veita þessa þjónustu. Þau stíga mjög varlega til jarðar.“

Þóranna segir að þessi þjónusta verði vinsæl svo lengi sem árangurinn fyrir auglýsendur sé til staðar. „Þá er ósköp eðlilegt að þau nýti það sem virkra. Það er það sem við erum að gera, meðal annars fyrir auglýsendur, hvernig við getum náð meiri árangri.“

Hægt sé að stefna á auglýsingar um allan heim, ef vill. „Ef þú vilt fara um allan heim, getur það verið undir. Það er mismunandi mikið hvað ákveðnir miðlar eru notaðir í ýmsum löndum. Þú ákveður við hverja þú ætlar að tala. Þú getur talað við svona fólk í London sem hefur áhuga á þessum hlutum.“