Tíu vikur eru síðan hin 68 ára Anne-Elisa­beth Fal­kevik Hagen var numin á brott af heimili sínu í Fjellhamar, í sveitarfélaginu Lørenskog, sem staðsett er skammt fyrir utan Ósló. Anne-Elisa­beth er eigin­kona milljarða­mæringsins Tom Hagen, en hann vermir 172. sæti á lista fjár­mála­tíma­ritsins Kapi­tal yfir ríkasta fólk Noregs. 

Fjöl­skyldu­með­limir og Norðmenn eru högg­dofa og harmi slegnir yfir af­drifum Anne-Elisa­beth. Þá er lög­reglan von­dauf en ekki er úr miklu að moða hvað sönnunar­gögn varðar og þá hafa mann­ræningjarnir, sem krefjast lausnargjalds, ekki haft sam­band nema í bréfum sem skilin voru eftir á heimili hjónanna.

Ó­hætt er að segja að málið hafi vakið mikla at­hygli, bæði innan landsteinanna sem utan. Fyrst var greint frá málinu í gær. Ein­hverjum fjöl­miðlum var þó kunnugt um rann­sókn málsins en skila­boð lög­reglu­yfir­valda til þeirra voru að fjalla ekki um það. Líf Anne-Elisa­beth væri í hættu og þá væru rann­sóknar­hags­munir í húfi. 

Mann­ræningjarnir sem fluttu Anne-Elisabeth nauðuga af heimili hennar skildu eftir bréf þar sem því var hótað að hún hefði verra af ef fjölskyldan ræddi við lög­reglu. 

Svein Holden, lög­maður Hagen-fjöl­skyldunnar, sagði í sam­tali við VG í gær að það hefði verið mjög krefjandi á margan hátt að tryggja að málið spyrðist ekki út. „Í sam­starfi við lög­regluna var talið rétt að gera þetta á þennan hátt,“ sagði hann um þessa á­kvörðun. 

Krefjast níu milljóna evra í órekjanlegri rafmynt

Á­kveðið var að greina frá hvarfinu í gær en lög­regla var þá komin í öng­stræti og var fátt um vís­bendingar. Á blaðamannafundi var upplýst að Anne-Elisa­beth hafi verið numin á brott af heimili sínu hinn 31. októ­ber. Svo virðist sem ráðist hafi verið á Fal­kevik inni á bað­her­bergi heimilis hennar og Tom Hagen og hún þaðan flutt gegn vilja sínum. Lög­reglu hafa borist yfir hundrað á­bendingar vegna málsins eftir að greint var frá því í gær­morgun. Þá greindi lögregla frá því í morgun að hún óskaði eftir að ná tali af nokkrum einstaklingum sem sjást bregða fyrir á myndböndum úr öryggismyndavélum fyrir utan skrifstofu Toms Hagen daginn sem eiginkona hans hvarf. 

„Þetta er einkum til þess að komast að því hverjir þetta eru og hvort þeir búi yfir einhverjum upplýsingum,“ sagði Tommy Brøske í morgun. Grunur leiki á að fylgst hafi verið með fjölskyldunni í aðdraganda mannránsins.

Í bréfum frá mann­ræningjunum, sem fundust á heimili hjónanna í Fjell­hamar, er þess einnig krafist að þeim verði greiddar jafn­virði níu milljóna evra, 1,2 milljarða króna, í ó­rekjan­legu raf­myntinni Monero. Tommy Brøske, yfir­maður hjá lög­reglunni sem fer fyrir rann­sókninni, greindi frá því á blaða­manna­fundi í gær að skila­boð lögreglu til fjöl­skyldunnar hafi verið að láta ekki undan kröfum mann­ræningjanna. Lög­maður fjöl­skyldunnar greindi síðan frá því seinna um daginn að fjöl­skyldan hygðist ekki gera slíkt. 

Bréfin skrifuð á „lélegri norsku“

Ljóst er að um háa fjár­hæð er að ræða en Hagen ætti að geta greitt hana létt­leikandi. Hann er, sem fyrr segir, meðal hinna 200 ríkustu í Noregi. Eignir hans eru metnar á 1,7 milljarða norskra króna, jafn­virði tæp­lega 24 milljarða ís­lenskra króna. Hann hefur einkum auðgast í gegnum orku- og eigna­sölu. Hann er meðal þeirra sem kom orku­fyrir­tækinu Elkraft á fót árið 1992 en það hefur síðan vaxið gífur­lega. Í dag á hann alls um 70 prósent hlut í fyrir­tækinu. Þrátt fyrir auð­æfin hafa hjónin látið nokkuð lítið á sér bera. Anne-Elisa­beth og Tom gengu í það heilaga árið 1979 og eiga þrjú upp­komin börn. 

Lög­regla hefur notið að­stoðar Inter­pol, Europol, ríkis­sak­sóknara og efna­hags­brota­deildarinnar við rann­sóknina. Þá hafa tungu­mála­sér­fræðingar lagt sitt af mörkum vegna bréfanna sem mann­ræningjarnir skildu eftir. NRK greinir frá því að þau séu skrifuð á lé­legri norsku. Það sé því annað hvort um að ræða menn sem ekki koma frá Noregi eða Norð­menn sem eru að reyna að villa um fyrir lög­reglu með því að orða bréfið með þessum hætti. 

Málið rifjar upp slæmar minningar

Það kann að heyra til tíðinda að svona mál komi upp í Noregi. Að eigin­konu milljarða­mærings sé rænt og fjöl­skyldan krafin um lausnar­gjald ellegar hafi hún verra af hljómar reyfarakennt og skáldskapi líkast. Norskir miðlar hafa af til­efni rifjað upp mál norska kaup­sýslu­mannsins Reidar Osen sem árið 2015 árum var numinn á brott af þremur mönnum. Mann­ræningjarnir nálguðust Osen fyrir utan list­verka­sýningu í Björg­vin þegar hann settist upp í bif­reið sína. 

„Þeir létu poka yfir höfuðið mitt og kæfðu mig. Á sama tíma miðuðu þeir byssu upp í munninn minn en þeir kjálka­brutu mig einnig og slógu úr mér tennur,“ segir Osen í sam­tali við NRK. Hann segir að fréttir af máli Anne-Elisa­beth hafi rifjað upp slæmar minningar. Ræningjarnir kröfðust þess að Osen reiddi af hendi tvær milljónir norskra króna, jafn­virði rúm­lega 28 milljóna ís­lenskra króna. Hann komst hins vegar undan í eigin bif­reið eftir að ræningjarnir brugðu sér frá en þeir höfðu haldið að Osen væri úr leik á þeim tíma­punkti. 

Hvað mál Anne-Elisa­beth varðar er ljóst að það er í nokkurri bið­stöðu eins og staðan er. Lög­regla hefur reynt hvað hún getur undan­farnar tíu vikur að upplýsa um hvarfið en án árangurs. Ekki er úr miklu að moða en bundin er von við að al­menningur geti veitt upp­lýsingar um hvarf Anne-Elisa­beth Fal­kevik Hagen eða þá að mann­ræningjarnir eða Anne-Elisa­beth sjálf hafi sam­band. Óttast er um af­drif hennar en á sama tíma er ekkert sem gefur til kynna, að sögn lög­reglu, að henni hafi verið ráðinn bani.

Reidar Osen var numinn á brott af þremur mönnum árið 2015.