Réttindaráð Hagaskóla hefur sent frá sér ályktun þar sem brottvísun fjórtán ára nemanda skólans er mótmælt. Um er að ræða stúlku í níunda bekk skólans að nafni Zainab Safari sem kemur frá Afganistan. Til stendur að vísa henni, móður hennar og bróður úr landi á næstunni, en Stundin fjallaði um mál fjölskyldunnar um síðustu helgi. 

Í ályktun frá réttindaráði Hagaskóla, sem samanstendur af nemendum, kennurum og foreldrum úr skólanum, kemur fram að ráðið mótmæli harðlega fyrirætlunum stjórnvalda að vísa fjölskyldunni úr landi. Ályktunin er dagsett 6. mars en var birt á heimasíðu skólans í dag. 

Þar kemur fram að Zainab sé nemandi í 9. bekk sem hafi komið til Íslands við upphaf yfirstandandi skólaárs eftir að hafa dvalið í flóttamannabúðum í Grikklandi. Mál hennar hafi verið tekið fyrir á fundi réttindaráðsins, en hún og fjölskylda hennar fengu nýverið upplýsingar um að þau yrðu send aftur til Grikklands. „Zainab vill vera áfram á Íslandi. Hún er í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar,“ kemur meðal annars fram í ályktuninni.

Þá kemur fram að Zainab sé ekki nema 14 ára gömul en hefur þurft að ganga í gegnum hluti sem ekkert barn eða fullorðinn ætti að þurfa að ganga í gegnum. 

„Réttindaráð Hagaskóla mótmælir harðlega þeim áformum að vísa Zainab og fjölskyldu hennar úr landi, út í óvissu sem hræðir fjölskylduna mjög. Ísland er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn hefur verið lögleiddur á Íslandi en samkvæmt 3. grein skulu yfirvöld taka allar ákvarðanir er varða börn með hagsmuni barna að leiðarljósi. Það sem barninu er fyrir bestu á að ráða. Einnig fjallar Barnasáttmálinn um rétt barna til góðra lífsskilyrða (grein 27), vernd gegn ofbeldi (grein 18) og rétt til menntunar (grein 28), svo dæmi séu nefnd. Við skorum á stjórnvöld að taka tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við ákvörðun sína.“