Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir, fyrr­verandi for­maður Sam­fylkingarinnar og fyrr­verandi ráð­herra, segist hafa beðið Jón Bald­vin Hannibals­son, fyrr­verandi ráð­herra, um að segja sig frá heiðurs­sæti á lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík fyrir þing­kosningarnar 2007. Þetta gerði Ingi­björg eftir að hafa fengið vit­neskju um eitt þeirra mála er varða meint kyn­ferðis­brot og á­reiti Jóns Bald­vins.

Ingi­björg segir frá þessu á Face­book-síðu sinni og er kveikjan að skrifum hennar dag­bókar­færslur Þóru Hreins­dóttur, nemanda Jóns Bald­vins Hannibals­sonar í Mela­skóla árið 1970, sem birtust í for­síðu­út­tekt Stundarinnar sem kom út fyrir helgi.

Merki­leg heimild

Ingi­björg segir að skrif Þóru séu merki­leg heimild um að­ferðir hans við að ná tökum á Þóru og hvaða af­leiðingar það hafði fyrir hugar­á­stand hennar. Í um­fjölluninni kom fram að Jón hefði átt í kyn­ferðis­legum sam­skiptum við Þóru sem á þessum tíma var fimm­tán ára gömul en Jón Bald­vin 31 árs, fjögurra barna faðir.

„Jón Bald­vin Hannibals­son ekki meir, ekki meir, hugsaði ég þegar ég frétti af þessu máli í síðustu viku og beitti mig eigin­lega hörðu til að lesa þessa frá­sögn,“ segir Ingi­björg sem kveðst í fram­haldinu hafa lesið allar þær sögur sem safnað hefur verið saman af meintum kyn­ferðis­brotum og á­reiti Jóns. Ingi­björg segir að við lesturinn hafi komið í ljós á­kveðið mynstur sem gangi eins og rauður þráður í gegnum allt hans at­ferli.

„JBH hagar sér eins og rán­dýr sem velur bráð sína af kost­gæfni - oftar en ekki ein­stak­ling sem er ekki með sterkt bak­land - sækir að henni með skipu­lögðum hætti, sýnir henni á­huga, jafn­vel trúnað, vingast við hana og vinnur traust hennar. Þegar traustið er komið er eftir­leikurinn auð­veldur. Þetta er lýsing á ó­trú­lega ljótum og ó­jöfnum leik þar sem kennarinn, skóla­meistarinn, ráð­herrann og sendi­herrann mis­beitir valdi sínu og sækir að ung­lings­stúlkum,“ segir Ingi­björg.

Fór rak­leiðis í Silfur Egils

Hún segist hafa fengið vit­neskju um eitt þessara mála árið 2007 þegar hún var for­maður Sam­fylkingarinnar. Varð það til þess að hún ræddi í trúnaði við Jón Bald­vin og bað hann að segja sig frá heiðurs­sæti á lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­víkur fyrir þing­kosningarnar 2007.

„Hann varð við þessari ósk minni en í stað þess að láta þar við sitja og sýna svo­litla iðrun og hugar­angur vegna fram­ferðis síns fór hann rak­leiðis í Silfur Egils og vældi yfir því að ég hefði hafnað honum í heiðurs­sætið á pólitískum for­sendum. Þetta gerði hann vitandi að ég gæti aldrei sagt opin­ber­lega hver var hin raun­veru­lega á­stæða fyrir því að ég vildi hann ekki í heiðurs­sætið. Það var svo ekki fyrr en 5 árum síðar, þegar Guð­rún Harðar­dóttir steig fram, sem á­stæðan varð heyrin­kunn,“ segir Ingi­björg.

Hún kveðst skrifa þetta núna þar sem Jón hafi aldrei viður­kennt mis­gjörðir sínar. Þá láti margir sér þær í léttu rúmi liggja af því að þeim finnst Jón Bald­vin hafa lagt svo margt að mörkum í ís­lenskri pólitík.

„Það kemur þessu máli hins vegar ekkert við og menn komast aldrei fram­hjá þeirri stað­reynd að þann orð­stír sem JBH á­vann sér á hinum pólitíska vett­vangi hefur hann sjálfur lítils­virt með því að mis­beita því valdi sem honum var falið gagn­vart fjöl­mörgum ung­lings­stúlkum og konum. Þar er ekki öðrum um að kenna.“

Þakkar Val­gerði og Bjarna Frí­manni

Ingi­björg segist einnig skrifa færsluna vegna þess að mál Jóns Bald­vins er ekki eins­dæmi.

„Oft berast sögur af kyn­ferðis­á­reitni og nauðung af hálfu karla sem eru vel liðnir, hæfi­leika­ríkir, vel metnir og hátt á kvisti í verð­leika­sam­fé­laginu. Við eigum mjög erfitt með að horfast í augu við að flottir karlar mis­beiti valdi sínu gagn­vart ungum konum og körlum. En það gerist nú samt og ef við neitum að horfast í augu við það þá er okkur líkt farið og fólki fyrri alda sem þagði yfir eða lét kyrrt liggja að heldri menn og valds­menn mis­notuðu undir­sáta sína. Takk Val­gerður Þor­steins­dóttir fyrir að birta dag­bókar­færslu móður þinnar og takk Bjarni Frí­mann Bjarna­son fyrir þinn kjark. Við hin verðum að hafa kjark til að taka á þessum málum.“