Hæstiréttur klofnaði í peningaþvættismáli í gær, þegar Hafþór Logi Hlynsson var sakfelldur og dæmdur í 20 mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti.

Hæstiréttur hafði samþykkt að taka málið til meðferðar, til að leysa úr óvissu um hvort ákæruvaldið þurfi að sanna frumbrot til að unnt sé að sakfella fyrir peningaþvætti. Það er mat meirihluta Hæstaréttar að sönnunarbyrðin hvíli á ákærða, fyrir því að fjármuna sem fundust hjá honum við húsleit hafi verið aflað á löglegan hátt.

Af fimm dómurum skiluðu tveir séráliti, þau Ása Ólafsdóttir og Karl Axelsson. Í sérálitinu er rakið hvernig óskýrleiki í ákæru hafi leitt til þess að ákærði hafi ekki haft tök á að verja sig með fullnægjandi hætti fyrir dómi, enda hafi hvorki verið vikið að einstökum brotum eða afmörkun þeirra í ákæru, né heldur hvenær brotin ættu að hafa verið framin.

Hafþór Logi segist verulega ósáttur við þessar málalyktir. Ekki aðeins hafi sönnunarbyrðinni verið snúið við, heldur einnig brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar og honum gert ómögulegt að koma almennilegri málsvörn við.

„Það verður tekið til vandlegrar skoðunar,“ segir Hafþór, inntur eftir því hvort hann hyggist leita til Strassborgar með málið. Hann bætir við: „Það er ekki síður þörf á því fyrst Hæstiréttur er klofinn í afstöðu sinni.“