Elvar Örn Frið­riks­son fram­kvæmda­stjóri Verndar­sjóðs villtra laxa­stofna segir myndefni frá Dýrafirði sýna steindauðan hafsbotn undir laxeldiskvíum sem jafnvel hafa verið í marga mánuði í hvíld. Þetta kemur fram í Frétta­vaktinni í kvöld en horfa má á viðtalið neðst í fréttinni.

Hann segir slysa­sleppingu 80 þúsund eldis­laxa í Arnar­firði ekki vera tekna nógu al­var­lega. Ís­lenskir firðir, eystra og vestra, ráði ekki við mengunina af völdum eldisins.

„Það þarf ekki að horfa langt til þess að sjá að þetta hefur hvergi komið sér vel fyrir um­hverfið. Í öllum löndum þar sem þessi iðnaður hefur verið stundaður er það sama sagan, það eru erfða­blandaðir laxa­stofnar, það er mikil mengun, það eru nei­kvæð á­hrif á líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika og þess vegna er ó­skiljan­legt að við séum á sömu veg­ferð hér.“

Slysin eru stór að ykkar mati?

„Slysin eru mjög stór og gríðar­lega al­var­leg. Bara núna fyrir nokkrum dögum síðan komu fram þær upp­lýsingar að meira en 80 þúsund frjóir norskir eldis­laxar hefðu sloppið úr kvíum Arnar­lax í Arnar­firði. Til að setja það í sam­hengi er það tölu­vert meira en allur villti laxa­stofninn á Ís­landi, það eru ekki nema 50 til 60 þúsund ein­staklingar.“

Að­spurður að því hvað sé í húfi nefnir Elvar Örn tíu þúsund ára þróunar­sögu ís­lenska laxins.

„Nú er verið að grípa inn í það með kyn­bættum norskum eldis­laxi. á Ís­landi í dag, nú er þessi iðnaður ekki orðinn full­byggður ef svo má komast að orði, en í dag eru 18,6 milljónir norskra eldis­laxar í ís­lenskum kvíum á móti 50 þúsund villtum ís­lenskum.“

Elvar hefur miklar áhyggjur af framtíð íslenska laxastofnsins.
Fréttablaðið/Samsett

Arnar­lax með litlar á­hyggjur af um­hverfis­á­hrifum

Elvar segir Arnar­lax lítið spá í á­hrifunum sem sloppnir laxar hafi.

„Það sem magnað er að sjá að þetta fyrir­tæki virðist frekar harma það að mat­væla­stofnun sé að gera þá á­byrga og láta þá borga sekt og virðast hafa meiri á­hyggjur af því en þeirri stað­reynd að hér hafi 80 þúsund eldis­laxar sloppið út í náttúruna.“

Hann segir það sitt álit að ís­lenskir firðir þoli alls ekki á­lagið frá starf­seminni og fjölda laxa sem slappa. „Það er okkar álit að þeir þoli það bara alls ekki.“

Eru rann­sóknir sem benda til þess?

„Gallinn er að það var ráðist svo hratt í þessar fisk­eldis­fram­kvæmdir hér á Ís­landi að það eru svo lítið til af rann­sóknum sem sýna grunn­línuna: Hvernig á­standið var í fjörðunum áður en fisk­eldið hófst,“ segir Elvar.

Hafs­botninn stein­dauður

„En við höfum séð á ný­legu mynd­efni frá Veigu Grétars­dóttur kaja­kræðara og um­hverfis­verndar­sinna að botn undir kvíum í Dýra­firði sem er búinn að vera hvíldur mánuðum saman er enn­þá ein stór bakteríu­motta þar sem ekkert annað þrífst, stein­dauður botn.“

Þetta er úr­gangur úr fiskunum?

„Úr­gangur úr fiskunum, fóður­leifar. Af því að það sem er svo­lítið merki­legt við sjó­kvía­eldi er að allt sem fer ofan í kvína endar á hafs­botni og þeir eru ekki á­byrgir fyrir því. Úr­gangurinn safnast bara upp.“

Elvar segir sjávarbotninn í Dýrafirði enn að jafna sig.
Fréttablaðið/Mynd

Spurður að því hvað sé til ráða segir Elvar:

„Við teljum, að númer eitt þá sýnir sagan okkur og vísindi að sjó­kvía­eldi á laxi virkar ekki nema fyrir þá sem eru hlut­hafar og græða pening á því. Þetta gengur ekki upp fyrir náttúruna og þetta gengur ekki upp fyrir sam­fé­lögin til lengdar.

Það sem við viljum sjá gerast er að stjórn­völd axli á­byrgð, viður­kenni að þessi veg­ferð sem við erum á er ekki væn­leg og fari að mynda tæki­færi fyrir fyrir­tæki til þess að færa sig í grænni átt og ef það á á annað borð að ala lax á Ís­landi þá þarf að gera það á á­byrgan hátt.“

Sakar Arnar­lax um græn­þvott

Þessi fyrir­tæki hafa stimplað sig græn. Þau eru það ekki að ykkar mati?

„Þetta er það sem við myndum kalla græn­þvottur. Ef þú skoðar vef­síður þessa fyrir­tækja, pakkningar sem vörurnar þeirra eru seldar í er þar mikið notað orð eins og sjálf­bært og vist­vænt,“ segir Elvar.

„En við sjáum á ný­legum dæmum og höfum séð það annars staðar þar sem þetta er stundað að þetta er ekki sjálf­bært og þetta er ekki vist­vænt.

Það er auð­vitað eins og með alla stór­iðju sem er mengandi og höfum það í huga að sjó­kvía­eldi er flokkað sem mengandi iðnaður að þeir þurfa að nota orð eins og þessi til þess að selja vöru sína og græn­þvo í­mynd sína.“

Segist skilja heima­fólk

Skilurðu heima­fólk sem þráir fjöl­breyttari at­vinnu?

„Ekki spurning. Okkar bar­átta gegn sjó­kvía­eldi snýst ekki um að draga úr at­vinnu­tæki­færum á lands­byggðinni, langt því frá,“ segir Elvar.

„Okkar punktur er sá að árið 2022 með öll þau vísindi og öll þau gögn sem við höfum þá getum við ekki tekið á­kvarðanir til höfuðs náttúrunnar. Byggjum upp at­vinnu í dreifðum byggðum en gerum það þá í al­vöru í sátt og sam­lyndi við náttúruna.

Svo má ekki gleyma því að það eru um það bil 2000 fjöl­skyldur í landinu sem hafa bein hlunnindi af lax­veiði­tekjum og ef erfða­blöndun norskra eldis­laxa við villtan ís­lenskan lax verður mikil þá hrynur verð­mæti þessara áa og þar af leiðandi þau hlunnindi sem þessar fjöl­skyldur treysta á.“

Við­talið við Elvar má horfa á hér fyrir neðan. Það hefst þegar 14:35 mínútur eru liðnar af Frétta­vaktinni.