„Yfir 70 athugasemdir bárust á kynningartíma lýsingar og mikil andstaða er við framkvæmdina,“ segir skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar sem leggur til að sveitarstjórn hafni því að samþykkja breytt aðalskipulag svo reisa megi vindmyllugarð á Grjóthálsi.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu vilja eigendur Sigmundarstaða og Hafþórsstaða reisa vindmyllur á Grjóthálsi til að framleiða raforku. Eiga spaðar þeirra að ná allt að 150 metrum upp í loft í hæstu stöðu. Yfir 70 athugasemdir bárust á kynningartíma lýsingar og mikil andstaða er við framkvæmdina. VSÓ ráðgjöf vann ítarlega skýrslu fyrir þá sem hyggjast standa að vindmylllunum og svarar þar mörgum athugasemdum sem bárust.

„Nokkuð er um misskilning og rangar upplýsingar um áhrif af mögulegum framkvæmdum á Grjóthálsi sem nauðsynlegt er að leiðrétta,“ segir í skýrslu VSÓ. Unnið sé að umfangsmiklum rannsóknum og gagnaöflun og niðurstöður verði kynntar á opnum miðlum og fundum.

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er hávaða- og sjónmengun. VSÓ segir að áhersla verði á hljóðvist og þess verði gætt meðal annars með staðsetningu vindmylla.

„Framkvæmdaaðilar sjálfir eiga íbúðarhúsin sem næst standa fyrirhuguðum framkvæmdum og hafa því mikilla hagsmuna að gæta varðandi hljóðvist. Þá er horft til þess að nota nýjustu vindmyllutækni sem er mun hljóðlátari en eldri gerðir vindmylla, til dæmis þær myllur sem reistar voru í Þykkvabæ,“ segir í skýrslu VSÓ.

Framkvæmdaaðilar sjálfir eiga íbúðarhúsin sem næst standa fyrirhuguðum framkvæmdum og hafa því mikilla hagsmuna að gæta varðandi hljóðvist.

Þá segir að lagðar séu til fáar vindmyllur til að minnka sjónræn áhrif andstætt áformum víða um landið.

„Þó greina megi vindmyllur við bestu skilyrði með góða sjón úr talsverðri fjarlægð munu þær helst sjást úr Þverárhlíð og ofan Grábrókar,“ segir VSÓ.

Meðal annarra athugasemda sem komu fram var að vindmyllurnar hefðu neikvæð áhrif á ferðaþjónustu með því að skerða upplifun ferðamanna, veiðimanna og náttúruunnenda og þar af leiðandi draga úr aðsókn. VSÓ segir að við frekari undirbúning verði þetta kannað og metið.

„Að mati framkvæmdaaðila er Grjótháls ein besta staðsetningin í sveitarfélaginu því hann er í talsverðri fjarlægð frá helstu ferðamannaleiðum og fer ekki inn á ósnortin víðerni,“ segir í skýrslunni.

Sem fyrr segir leggur skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar til að aðalskipulagsbreytingunni verði hafnað og er málið nú á borði sveitarstjórnarinnar sem fundar í dag.

„Jafnframt telur nefndin mikilvægt að sveitarfélagið setji sér skýra stefnu um nýtingu vindorku í endurskoðun á aðalskipulagi Borgarbyggðar.“