Heitar umræður hafa myndast á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að Hafnarfjarðarbær ákvað að setja takmörk á veru hestvagns fyrir börn í Jólaþorpinu í bænum. Ákvörðunin var tekin í kjölfar ábendinga frá Veganbúðinni, sem er í Strandgötu sem vagninn ekur um.

Bettina Wunsch, hestakona sem hefur séð um vagninn síðastliðin fimm ár, birti færslu á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún tilkynnti um að hún myndi ekki aka vagninum í dag. „Þar sem það telst greinilega dýraníð að vera með hesta á feti á malbiki er ég ekki að keyra á morgun í jólaþorpinu í Hafnarfirði!“ segir hún.

Í kjölfarið hafa svo skapast heldur heitar umræður um málið, sérstaklega í Facebook-hóp Hafnfirðinga. Þar kalla margir bæjarbúar eftir því að hestvagninn fái að aka áfram á óbreyttum tíma og virðast margir kenna Veganbúðinni um málið og jafnvel grænkerum almennt.

Veganbúðin hefur þá sent frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem segir: „Ákvörðun um að breyta dagskrá hestvagnsins var tekin af fulltrúum Hafnarfjarðar í gær og ákvörðun tilkynnt eiganda hestanna. Hún birti tilkynningu þess efnis á sínum Facebook aðgangi áður en bærinn hafði birt upplýsingar um ákvörðunina eða rökstuðning um hana.“

Talsmenn Veganbúðarinnar segja ákvörðunina hafa verið tekna af Hafnarfjarðarbæ einum sem verði að svara fyrir málið.
Veganbúðin

„Hvorki bærinn né við höfum verið beðin um rökstuðning né veittur kostur á að koma málefnalegum sjónarmiðum á framfæri. Þess ber að geta að samkvæmt samtali við fulltrúa bæjarins í gær snerist fjarvera hestanna í dag um óbærilegt frost, sem ég vona að þið getum öll verið sammála um að sé góð ákvörðun út frá dýraverndarsjónarmiðum,“ segir þá í færslunni og þar tekið fram að samkvæmt tilkynningu Jólaþorpsins verði ferðirnar aðeins með breyttu sniði í dag; á milli klukkan 16 og 18 og svo allan daginn á morgun.

„Það að vera vegan og hafa skoðun á framkomu við dýr, mennsk og ómennsk þýðir ekki að það sé verið að hatast út í þau sem halda dýr,“ segir enn fremur í tilkynningu verslunarinnar. „Það að óska þess að dýr verði ekki framar notuð í afþreyingarskyni er skoðun sem komið var á framfæri. Engir einstaklingar hafa verið sakaðir um dýraníð og ekkert þeirra sem lýsti skoðun sinni á þessari venju efast um góðvild hesteigandans eða vilja hennar til að hugsa vel um dýrin sín.“