Hafnaryfirvöld í Vestmannaeyjum segja að ekki sé um svartolíuleka að ræða heldur hafi sót komist í höfnina vegna mengunarvarnarbúnaðar í flutningaskipi.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að um hundrað lundar koma úr Vestmannaeyjahöfn þaktir svartolíu á hverju ári. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Náttúrustofu Suðurlands sjá um að þrífa fuglana og segja vandamálið viðvarandi. Karen Lynn Vales, bandarískur líffræðingur, hefur kennt starfsmönnunum að þrífa olíublauta fugla.

Lundapysjur eiga til að villast í bæinn og í höfnina til að leita sér að æti. Fuglarnir eru í nokkurn tíma að jafna sig eftir þrifin.

„Það þarf að þurrka þá vel og smyrja fjaðrirnar með fitu úr fitukyrtli undir stélinu, þannig að þeir verði vatnsheldir aftur,“ sagði Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á hafnaryfirvöld í Vestmannaeyjum varðandi lekann og fékk eftirfarandi svar:

„Það er ekki svartolíuleki í höfninni en aftur á móti lentum við í því í morgun að mengunarvarnabúnaður í flutningaskipi olli því að það fór sót í höfnina með þessum afleiðingum. Verið er að skoða málið með útgerð skipsins,“ skrifar Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar.

Þetta stemmir þó ekki við upplýsingar frá Náttúrustofu Suðurlands, að um það bil 100 lundapysjur finnast í Vestmannaeyjahöfn, þaktar svartolíu. Vandamálið er viðvarandi að þeirra sögn og er ekki um einstakt mál að ræða.

Fréttablaðið benti hafnaryfirvöldum á það. Hafnaryfirvöld ítrekuðu svör sín um að engin svartolía væri í höfninni, heldur hafi sót farið úr mengunarvarnarbúnaði skips í sjóinn.