Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar tók vel í tillögu um að koma upp fljótandi gufubaði í Ísafjarðarhöfn þegar erindið var tekið fyrir að nýju í vikunni. Eftir að hafa heyrt kynningu á verkefninu var hafnarstjóra falið að greina kostnað vegna mögulegrar aðkomu hafnarinnar.

Eins og Fréttablaðið fjallaði um á dögunum fer fjögurra manna hópur fyrir tillögunni og vill reisa fljótandi gufubað í Ísafjarðarhöfn líkt og hefur notið vinsælda í Skandinavíu.

Gauti Geirsson, einn af forsvarsmönnum hópsins, telur að heildarkostnaðurinn sé undir 25 milljónum en aðeins eitt gufubað er í bænum. „Það kom tillaga um að staðsetja þetta við skútuhöfnina sem er skemmtilegt svæði. Það myndi koma með nýtt aðdráttarafl í höfnina og auka lífið í miðbænum. Uppleggið er að þetta sé opið allan ársins hring, bæði fyrir heimamenn og ferðamenn,“ sagði Gauti á sínum tíma.