„Þetta er geggjað skip, hrika­lega flott,“ segir Pétur Ólafs­son, hafnar­stjóri Hafna­sam­lags Norður­lands, um eina stærstu snekkju veraldar sem sigldi inn í Eyja­fjörð í gær­kvöldi.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá er snekkjan A í eigu rúss­neska milljarða­mæringsins Andrey Melnichen­ko og er skráð á Bermúda­eyjum. Hún er talin stærsta segl­skúta í einka­eigu sem knúin er jafn­framt með mótor.

Snekkjan hefur legið við Krossa­nes hjá olíu­höfninni í dag. Skip­verjar og gestir ­fylgja reglum sem gilda um landa­mæri. Heilsu­gæslan á Akur­eyri hefur séð um skimun á skip­verjum. Sér­stakar reglur gilda um skip sem hafa verið á hafi lengur en 14 daga.

Fréttablaðið/Auðunn

„Þetta vakti mikla at­hygli hérna í gær. Ég ætla ekki að segja öng­þveiti en fjöldinn allur af fólki lagði leið sína til að taka myndir og stoppuðu á hæðinni fyrir ofan,“ segir Pétur.

Snekkjan er 142 metra löng og möstrin eru um eitt hundrað metrar á hæð. Það er á­stæða þess að snekkjan sigldi ekki inn á Pollinn enda geta möstrin truflað flug­um­ferð.

„Þetta er eins og ís­lenskt flutninga­skip að lengd og fót­bolta­völlur að stærð upp í loftið,“ segir Pétur.

Fréttablaðið/Auðunn

Að sögn Péturs er reiknað með að snekkjan verði í Eyja­firði í nokkrar vikur.

Snekkjan var af­hent eig­anda sínum árið 2017. Hún var smíðuð af þýsku skipa-smíða­stöðinni Kobiskrug í Kiel. Ytra borð hennar er hannað af Doel­ker + Voges, franska arti­tektinum Jacqu­es Garcia og hinum fræga franska hönnuði Philippe Starck, sem einnig hannaði fleyið að innan.

Snekkjan tekur sig vel út í Eyjafirði.
Fréttablaðið/Auðunn