Hestamannafélagið Sörli í Hafnarfirði ætlar að halda 1.200 manna hestamannamót um miðjan júlí þegar Íslandsmót barna og unglinga fer fram. Hestamannafélagið sendi bænum bréf í lok apríl þar sem það fór fram á að bærinn fjölgaði stöðugildum sumarstarfsfólks sem fær vinnu við að fegra svæðið. Slá lúpínu, sinna viðhaldi valla, málun og fleiru. „Ljóst er að gera þarf ýmislegt á svæðinu til að það líti sem best út og verði Sörla og íþróttastarfi í Hafnarfjarðarbæ til sóma,“ segir í bréfinu.

Þá er óskað eftir stuðningi við framkvæmdir við velli og keppnisbraut í formi áhalda og tækja sem bærinn á. Sörli er með ólöglegan keppnisvöll og skeiðbrautin skapar nú ákveðna slysahættu.

Einnig vill Sörli ráða starfsmann fram að Íslandsmóti til að sinna kynningu og markaðsstarfi og samstarf við fjölmiðla og gefa út mótsblað. Starfsmaðurinn á einnig að vera eins konar framkvæmdastjóri í samstarfi við starfshóp sem Sörli ætlar að skipa. Leggur félagið til að þetta verði námsmaður í háskóla.

Sörli býst við 300 keppendum og 3-5 með hverjum keppanda og vill fá að bjóða þeim í sund í bænum og að lokum óskar félagið eftir að taka fyrstu skóflustungu að nýrri reiðhöll á opnunarhátíðinni.