Birgir Jóns­son, for­stjóri Play, hafnar því al­farið að flug­rekstrar­gögn fé­lagsins byggi á stolnum gögnum frá WOW air. Lög­maður Michele Ballarin, sem keypti gögnin úr þrota­búi WOW, segir hana ekki geta nýtt hand­bækurnar vegna þessa. Því sé um raun­veru­legan skaða sé að ræða fyrir hans skjól­stæðing.

Fram kom í Frétta­blaðinu í dag að Michele Ballarin, eig­andi þrota­bús WOW air, vill vitna­skýrslur af for­svars­mönnum Play vegna horfinna flug­rekstrar­hand­bóka. Í tölvu­pósti Sveins Andra Sveins­sonar, skipta­stjóra WOW air, til Sam­göngu­stofu, spyr hann hvort Play hafi byggt flug­rekstrar­hand­bækur sínar á bókum WOW.

„Það er skemmst frá því að segja að við vísum þessu al­gjör­lega á bug. Þetta er al­gjör­lega fjar­stæðu­kennt,“ segir Birgir í sam­tali við Frétta­blaðið um málið.

„Það tekur gríðar­lega langan tíma og er mikið ferli að stofna flug­fé­lag og fá flug­rekstrar­leyfi. Sam­göngu­stofa vakir yfir hverjum einasta hluta af því ferli og vottar allt. Þetta er ekkert þannig að þú getir lagt fram ein­hverjar bækur sem þú hefur fundið út í Öskju­hlíð,“ segir Birgir.

Hann segir að málið sé rætt á þeim for­sendum að um sé að ræða ein­hverjar bækur sem séu horfnar. Það sé ekki þannig. „Þetta eru í raun bara gæða­kerfi, ferlar sem eru skrifaðir alveg frá grunni og það skiptir máli hvaða flug­vélar á að nota, skráningar­númer á þeim og því­líku smá­at­riðin,“ segir hann.

Málið hljóti þá líka að snúast um á­sakanir í garð Sam­göngu­stofu. „Þetta í raun bara stenst enga skoðun og er al­gjör­lega fjar­stæðu­kennt að það séu þessi vinnu­brögð. Fyrir utan það að þessar bækur eru ekkert al­vöru bækur, þetta er geymt á raf­rænu formi og ég hefði haldið að skipta­stjórar þrota­búsins ættu að átta sig á því hvar þessi raf­ræna geymsla er. Þetta er ekki ein­hver stafli af ein­hverjum pappír, þetta er bara geymt á mið­lægum stað í þannig kerfi og varla svara­vert ef þetta væri ekki svona al­var­legt.“

Birgi segist ekki telja að tíma­setning málsins sé til­viljun. „Bæði það að við erum að hefja starf­semi og að skrá út­boð. Ég meina af hverju er þetta að koma upp núna, það eru eitt og hálft eða tvö ár frá því að þessi aðili keypti þetta þrota­bú ef það er það sem hún gerði, ég veit ekkert um það,“ segir Birgir.

„Sami aðili var í gær að lýsa yfir því að hún viður­kenni ekki ís­lenska dóm­stóla út af ein­hverju Lúga­nó samningi þannig ég átta mig ekki á því hvað hún er að fara með því að stefna ein­hverju fólki fyrir vitna­leiðslu fyrir sömu dóm­stóla, þetta fellur eigin­lega allt í það sama og þetta er eigin­lega bara farsi,“ segir hann. Þar vísar Birgi til frétta sem bárust af því í gær að Michele Ballarin neitar að greiða 40 milljón króna reikning sem Héraðs­dómur Reykja­víkur dæmdi hana til að greiða í vetur.

Segir ekki um að ræða til­raun til að leggja stein í götu Play

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir lög­maður Ballarin, Páll Ágúst Ólafs­son, að málið feli í sér raun­veru­legan skaða fyrir sinn um­bjóð­enda. Hann hafnar því að um sé að ræða til­raun til að leggja stein í götu Play air. Í beiðni Ballarin um vitna­leiðslur segir orð­rétt:

„Stað­reyndin er sú að hafi flug­rekstrar­hand­bækurnar verið hag­nýttar af þriðja aðila kunna þær að vera ó­nýtar að ein­hverju eða mögu­lega öllu leyti raun­veru­legum eig­anda þeirra og því ekki lengur tækar til nokunar. Um er að ræða um­tals­verða hags­muni sem kunna að hlaupa á hundruðum milljóna og stendur þá um­bjóðandi minn frammi fyrir gríðar­legu tjóni.“

Að­spurður að því hvort um sé að ræða til­raun til að leggja stein í götu Play og hvers vegna ekki sé hægt að nýta flug­rekstrar­hand­bækurnar fyrir hið nýja WOW þrátt fyrir að þær hafi mögu­lega verið nýttar fyrir Play segir Ágúst að öryggis­kerfis­hand­bók sé meðal þess sem ekki megi vera eins hjá báðum fé­lögum.

„Það sem er meint með því er að ef við tökum til dæmis öryggis­hand­bókina, að þar koma fram öll öryggis­at­riði hvernig öryggis­gæslu er háttað um borð, hvernig þú kemst inn í flug­stjórnar­klefann en hvert og eitt flug­fé­lag er með mis­munandi verk­lags­reglur. Þetta er bara eins og að gefa ein­hverjum PIN-kóðann á Secu­ritas öryggis­kerfinu heima hjá þér,“ segir Ágúst.

Hann segir ekki stjarn­fræði­legur mögu­leiki á því að flug­rekstrar­hand­bækur Play hafi verið skrifaðar frá grunni. Sitt fé­lag hefði getað notað um­rædd gögn beint frá WOW en telji að þriðji aðili hafi nýtt sér þær og reynt að fá stað­festingu þess efnis frá Sam­göngu­stofu. Engin svör hafi borist þaðan.

„Og málið er það að gögnin finnast ekki. Þetta eru grund­vallar­gögn í rekstri flug­fé­lags,“ segir Páll. Um sé að ræða hátt í annan tug síðna. Hann viður­kennir að það sé flókið að út­skýra hvað veldur því að bækurnar séu ó­nýtar vegna meintrar notkunar þriðja aðila. „Það eru rök fyrir því af hverju það er ekki hægt en aug­ljósasta dæmið er þetta með öryggis­hand­bókina,“ segir Páll.