Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir þá sem eru í efri lögum launalega hjá hinu opinbera ekki eiga að vera leiðandi í launaþróun. Hins vegar sé jákvætt að kjarabætur hafi orðið hjá kvennastéttum hjá hinu opinbera.

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að einkarekinn atvinnumarkaður eigi erfitt með að keppa við ríkið vegna launaskriðs opinberra starfsmanna. Ríkið sogi til sín hæfa starfskrafta. Hætta sé á spekileka í vissum greinum þar sem laun ríkisstarfsmanna séu komin úr böndunum.

„Við höfum fylgst mjög vel með launaþróun á kjaramarkaði,“ segir Katrín sem bendir á að kvennastéttir innan opinbera geirans hafi fengið sanngjarnar kjarabætur sem skýri uppbætur launa að hluta. „Aftur á móti þá eigum við sem erum í efri lögum kjaralega hjá ríkinu ekki að vera leiðandi í launaþróun.“

Spurð hvort gengið hafi verið of langt í launahækkunum opinberra starfsmanna svarar forsætisráðherra: „Það tel ég ekki vera.“