Árni Bragason landgræðslustjóri hafnar fullyrðingum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem birtust nýlega í Fréttablaðinu og ályktun stjórnar félagsins um að nokkrir starfsmenn Landgræðslunnar hafi á síðustu árum vegið að skógrækt, starfsemi Skógræktarinnar og skógræktarfélaga. Að það sé gert út frá trúarlegum eða þjóðernislægum lífsskoðunum svo sem hvaða trjátegundir eigi sér þegnrétt í íslenskri náttúru sé rakalaus fullyrðing.

„Landgræðslan hefur hvatt til þess að fyrsta val við ræktun landgræðsluskóga sé íslenskt birki og að notuð verði staðarafbrigði ef tök eru á,“ segir Árni. „Ástæðan er að birki hefur vaxið á Íslandi í þúsundir ára og er aðlagað aðstæðum hér, en við vitum vel að birkið er ekki besta tréð til allra nota.“

Svandís Svavarsdóttir hefur boðað sameiningu Skógræktar og Landgræðslu og hefur það ekki alls staðar fallið í góðan jarðveg. Í viðtali sagði Jónatan að Skógræktarfélagið hefði áhyggjur af því að sameiningin snerist um sparnað og að hætta væri á að skógræktin yrði undir bæði hvað varðar fjármagn og stefnu. Deilan snýst meðal annars um notkun stafafuru.

„Það að segja frá því opinberlega að rannsóknir sýni að stafafura sé talin ágeng tegund og að hvetja til þess að hún verði notuð með varúð er hvorki hreintrúarstefna né öfgar,“ segir Árni. „Starfsfólki Landgræðslunnar ber skylda til að segja frá slíkum rannsóknum. Við viljum síst af öllu að saga alaskalúpínunnar endurtaki sig. Þar ber landgræðslu- og skógræktarfólk mesta ábyrgð, en við vorum á sínum tíma í góðri trú, við sáum ekki fyrir hversu ágeng tegundin er.“

Bendir hann á að í sameinaðri stefnu um landgræðslu og skógrækt, Landi og lífi, sé í öðrum kafla gert ráð fyrir framkvæmd hættumats á notkun algengustu trjátegunda í skógrækt. Það sé verkþáttur sem matvælaráðuneytið beri ábyrgð á.

Segist hann hvetja formann Skógræktarfélagsins til að leggja fram staðreyndir fremur en að bergmála rakalausar fullyrðingar. „Það er öllum hollt að kynna sér staðreyndir og komast úr bergmálshelli þar sem klifað er á röngum fullyrðingum því annars er hætta á að rangfærslurnar verði ráðandi í máli okkar og skrifum,“ segir hann.

Sjálfur segist Árni hafa notað stafa­furu sem jólatré í áratugi og vonar að Íslendingar auki notkun hennar í þeim tilgangi. „Ég vona að menn beri gæfu til að skipuleggja ræktun stafafurunnar og ræktunarsvæði þannig að slys verði ekki með sama hætti og orðið hefur með lúpínuna,“ segir hann.

Jafnframt tekur hann undir orð Jónatans um að nauðsynlegt sé að vanda til verka við fyrirhugaða sameiningu. Verkefnið að rækta landið og klæða það sé risastórt verkefni. „Við þurfum að vernda og endurheimta votlendi og náttúruskóga og við þurfum að rækta nytjaskóga með innfluttum tegundum. Við þurfum að byggja upp skógarauðlind fyrir komandi kynslóðir,“ segir Árni.