Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir loðnusjómenn fá rétt borgað og hafnar ásökunum um að þeir hafi verið hlunnfarnir. Meðalverð til þeirra á nýlokinni vertíð sé um þrefalt hærra en það var 2017.
„Við höfum alltaf viljað hafa rétt og sanngjarnt verð til sjómanna og viljum hafa það opið og gagnsætt,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um ásakanir þess efnis að útgerðarfyrirtæki hafi greitt loðnusjómönnum of lítið.
Vilja að Verðlagsstofa skoði málið
Eins og fram kom í Fréttablaðinu á miðvikudag vill Sjómannasambandið að Verðlagsstofa skiptaverðs fari ofan í saumana á loðnuverði á vertíðinni sem nú er lokið. Sagði Valmundur Valmundsson, formaður sambandsins, að sjómenn teldu sig hlunnfarna af sjávarútvegsfyrirtækjunum sem væru ekki að greiða þeim réttmætan hlut af aflaverðmætinu.
Sigurgeir Brynjar segir loðnuverð mjög hátt núna og að bæði söluverðið og verð til sjómanna hafi þrefaldast frá vertíðinni 2017. Segir hann sjávarútvegsfyrirtækjunum bera skylda til þess að gefa út fast verð í upphafi loðnuvertíðar en þá sé eftir að semja við kaupendur.

„Við gáfum út verð og sögðum við sjómenn: Þetta er okkar fyrsta útspil. Meirihlutinn samþykkti það í því trausti að ef að verð myndi hækka þá myndum við hækka til þeirra og það gerðum við,“ segir framkvæmdastjórinn sem hafnar því alfarið að áhafnir Vinnslustöðvarinnar hafa verið hlunnfarnar. „Ef verðið hefði lækkað hefði Vinnslustöðin samt þurft að greiða upphafsverðið. Þeir vilja bara fleyta rjómann og svo vilja þeir ekki standa með okkur þegar lága verðið er eða þegar lélegi fiskurinn kemur að landi.“
Þeir hafa aldrei komið
Sigurgeir segir að á árinu 2012 hafi Vinnslustöðin sætt sams konar ásökunum. „Þá hittum við alla forystumenn sjómanna og buðum þeim að koma í Vinnslustöðina og skoða öll okkar gögn sem Verðlagsstofa hafði farið yfir. Þeir hafa aldrei komið,“ segir hann.
Áður fyrr var Vinnslustöðin að sögn Sigurgeirs Brynjars með samning við sínar áhafnir um að sjómenn fengju fast hlutfall af söluverði afurða sem hækkaði eða lækkaði eftir því hvort illa eða vel gekk að selja. Sjómenn vilji ekki þannig hlutaskiptakerfi en slíkt fyrirkomulag segir hann myndu leiða til betri meðferðar á aflanum og hærra verðs.
„Hagsmunir sjómannanna og sjávarútvegsfyrirtækjanna fara fullkomlega saman og þannig viljum við hafa það,“ segir Sigurgeir Brynjar.
