Spítali í Boston hefur hafnað alvarlega hjartveikum manni um hjartaígræðslu vegna þess að hann vill ekki láta bólusetja sig gegn Covid-19.
DJ Ferguson er 31 árs karlmaður sem þarf nauðsynlega að fá nýtt hjarta vegna arfgengs hjartagalla sem veldur því að lungu hans fyllast af blóði og vökva. DJ hefur legið inn á Brigham and Women's Hospital spítalanum í Boston síðan 26. nóvember vegna veikinda sinna en að sögn föður hans, David, var hann tekinn af lista yfir hjartaþega vegna þess að hann vill ekki láta bólusetja sig.
„Strákurinn minn er að berjast af fjandi miklu hugrekki og hann er með heilindi og prinsipp sem hann trúir virkilega á og það lætur mig bera enn meiri virðingu fyrir honum. Þetta er hans líkami, þetta er hans val,“ segir David Ferguson.
Að sögn spítalans fylgir er það samkvæmt stefnu spítalans að veita ekki líffæragjafir til óbólusettra einstaklinga.
„Vegna skorts á fáanlegum líffærum gerum við allt sem í valdi stendur til að tryggja að sjúklingar sem fá ígrædd líffæri hafi sem mestar líkur á því að lifa af,“ segir í yfirlýsingu spítalans til BBC.
Talsmaður spítalans sagði enn fremur að kröfur væru gerðar til líffæraþega um bólusetningu gegn Covid-19 og ýmsar hegðunarbreytur til að skapa sem bestar aðstæður fyrir árangursríkar aðgerðir og hámarka lífslíkur sjúklinga eftir líffæragjöf í ljósi þess að ónæmiskerfi þeirra væri mjög veikt.
Að sögn BBC gefur fínlega orðuð yfirlýsing spítalans til kynna að aðrar ástæður gætu legið að baki því að DJ Ferguson var hafnað um hjartaígræðslu en spítalinn vildi þó ekki veita nánari upplýsingar í máli hans.
Að sögn skipuleggjenda fjáröflunar til stuðnings DJ Ferguson var hann hræddur um að hann gæti lent í hjartavöðvabólgu ef hann myndi láta bólusetja sig, sjaldgæfri aukaverkun af bólusetningu gegn Covid-19, sem gæti reynst honum mjög hættulegt í ljósi hjartaveikinda hans.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) hvetur þó engu að síður líffæraþega og alla í þeirra nánasta hring til að láta bólusetja sig að fullu.
DJ Ferguson er faðir tveggja barna og á von á sínu þriðja barni. Að sögn fjölskyldu hans mun hann verða áfram á spítalanum enn sem komið er að þau segja hann of veikburða til að vera fluttur annað og að tíminn sé senn á þrotum.
„Sonur minn er kominn á brún dauðans og gefur ekkert eftir. Hjarta hans hefur nú rýrnað svo mikið að það virkar ekki lengur,“ segir David faðir hans.