Spítali í Boston hefur hafnað al­var­lega hjart­veikum manni um hjartaígræðslu vegna þess að hann vill ekki láta bólu­setja sig gegn Co­vid-19.

DJ Fergu­son er 31 árs karl­maður sem þarf nauð­syn­lega að fá nýtt hjarta vegna arf­gengs hjarta­galla sem veldur því að lungu hans fyllast af blóði og vökva. DJ hefur legið inn á Brig­ham and Wo­men's Hospi­tal spítalanum í Boston síðan 26. nóvember vegna veikinda sinna en að sögn föður hans, David, var hann tekinn af lista yfir hjarta­þega vegna þess að hann vill ekki láta bólu­setja sig.

„Strákurinn minn er að berjast af fjandi miklu hug­rekki og hann er með heilindi og prinsipp sem hann trúir virki­lega á og það lætur mig bera enn meiri virðingu fyrir honum. Þetta er hans líkami, þetta er hans val,“ segir David Fergu­son.

Að sögn spítalans fylgir er það sam­kvæmt stefnu spítalans að veita ekki líf­færa­gjafir til óbólu­settra ein­stak­linga.

„Vegna skorts á fáan­legum líf­færum gerum við allt sem í valdi stendur til að tryggja að sjúk­lingar sem fá í­grædd líf­færi hafi sem mestar líkur á því að lifa af,“ segir í yfir­lýsingu spítalans til BBC.

Tals­maður spítalans sagði enn fremur að kröfur væru gerðar til líf­færa­þega um bólu­setningu gegn Co­vid-19 og ýmsar hegðunar­breytur til að skapa sem bestar að­stæður fyrir árangurs­ríkar að­gerðir og há­marka lífs­líkur sjúk­linga eftir líf­færa­gjöf í ljósi þess að ó­næmis­kerfi þeirra væri mjög veikt.

Að sögn BBC gefur fín­lega orðuð yfir­lýsing spítalans til kynna að aðrar á­stæður gætu legið að baki því að DJ Fergu­son var hafnað um hjartaígræðslu en spítalinn vildi þó ekki veita nánari upp­lýsingar í máli hans.

Að sögn skipu­leggj­enda fjár­öflunar til stuðnings DJ Fergu­son var hann hræddur um að hann gæti lent í hjarta­vöðva­bólgu ef hann myndi láta bólu­setja sig, sjald­gæfri auka­verkun af bólu­setningu gegn Co­vid-19, sem gæti reynst honum mjög hættu­legt í ljósi hjarta­veikinda hans.

Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna (CDC) hvetur þó engu að síður líf­færa­þega og alla í þeirra nánasta hring til að láta bólu­setja sig að fullu.

DJ Fergu­son er faðir tveggja barna og á von á sínu þriðja barni. Að sögn fjöl­skyldu hans mun hann verða á­fram á spítalanum enn sem komið er að þau segja hann of veik­burða til að vera fluttur annað og að tíminn sé senn á þrotum.

„Sonur minn er kominn á brún dauðans og gefur ekkert eftir. Hjarta hans hefur nú rýrnað svo mikið að það virkar ekki lengur,“ segir David faðir hans.