Tillaga forsætisráðherra Bretlands, Borisar Johnson, um að boða til þingkosninga þann 15. október var felld í neðri deild breska þingsins í kvöld. Tillöguna lagði Johnson fram eftir að tillaga minnihlutans um að sækja um að fresta Brexit fram á næsta ár var samþykkt.

Til að slík tillaga nái fram að ganga þurfa tveir þriðju hlutar þingmanna að styðja hana. Einungis 298 þingmenn studdu tillöguna en Johnson hefði þurft stuðning 434 þingmanna.

„Þetta hlýtur að vera í fyrsta skipti í sögunni sem að minnihlutinn hafnar boði meirihlutans um að boða til þingkosninga,“ sagði Johnson eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var gerð opinber. Þetta uppskar mikinn hlátur þingmanna. „Ástæðan fyrir því hlýtur að vera sú að hann telur sig hreinlega ekki geta unnið kosningarnar,“ hélt Johnson áfram.

Eftir að tillagan um að sækja um að fresta Brexit var samþykkt í kvöld sagði hann að nú yrði að boða til kosninga. Ástæðuna sagði hann að slík beiðni kæmi í veg fyrir samningslaust Brexit og því fái Evrópusambandið nú öll völd í sínar hendur í viðræðunum. Þannig finnst honum frestunin jafngilda uppgjöf en hann kveðst ekki geta tekið þátt í henni.

„Ég vil ekki kosningar, almenningur vill ekki kosningar en þessi deild þingsins býður ekki upp á annað,“ sagði Johnson áður en að gengið var til atkvæða um tillögu hans.