Óánægður viðskiptavinur Lyfja og heilsu í Firðinum í Hafnarfirði sakar apótekið um að hafa hækkað verð á andlitsgrímum í dag með litlum fyrirvara.

Því til stuðnings hafi hann tvær kvittanir sem sýni annars vegar kaup á grímum klukkan 13:09 á 210 krónur stykkið og svo önnur kaup í sama apóteki 23 mínútum síðar. Þá hafi hann borgað 498 krónur fyrir stykkið eða meira en tvöfallt það sem hann borgðaði áður.

Myndin sem viðskiptavinurinn birti á Facebook.
Mynd/Facebook

Tvær mismunandi tegundir

Jóney Ósk Kvaran, innkaupastjóri Lyfja og heilsu í Firðinum, hafnar þessu og segir lítið til í ásökununum. Um tvær ólíkar vörur sé að ræða sem sjáist meðal annars á því að ólík vörulýsing sé á kvittununum tveimur.

Þrjár tegundir af andlitsgrímum séu nú í sölu hjá apótekinu og ódýrari gerðin hafi klárast fljótlega eftir blaðamannafundinn í dag þar sem stjórnvöld greindu frá hertum sóttvarnaraðgerðum.

Hún segir að þegar mest lét í mars og apríl hafi Lyf og heilsa verið með sex mismunandi tegundir andlitsgríma í sölu til að koma til móts við eftirspurn.

„Um leið og blaðamannafundurinn í dag klárast æðir fólk inn til að kaupa grímur og við byrjum á því að selja þessar ódýrari á 210 krónur. Um og leið þær eru búnar þurfum við að selja hinar dýrari og það útskýrir þennan mun.“