Formenn VR og Eflingar hafna öllu tali um að það sé ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að slíta kjaraviðræðum í samtali við blaðamenn eftir fundinn með Samtökum atvinnulífsins nú síðdegis. Þeir segja að skömminni hvað varðar ábyrgðarleysi verði skilað til SA. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá gengu forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar í tvígang út af fundi með SA í dag.

Sjá einnig: Viðræðum slitið eftir hálftíma fund

„Ég hvet alla félagsmenn okkar, í VR og annarra félaga og almenning í landinu, að standa þétt að baki okkar, því það mun á endanum ráða úrslitum, hversu mikil lífsgæði okkur tekst að ná fram í þessum samningum, það er í rauninni, samtakamáttur heildarinnar“, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. 

Einhverjir hafa talað um ábyrgð ykkar gagnvart efnahagslífinu. Margir segja að bara það að boða aðgerðir gætu komið verðbólgu af stað, hvað segið þið um það?

„Já margir hafa auðvitað sagt margt. Ábyrgð samfélagsins gagnvart því að tryggja vinnuaflinu viðunandi lífskjör hlýtur að vera mjög mikil. Ábyrgð þeirra sem rekja fyrirtæki í því að borga þeim sem býr til hagnaðinn og býr til gróðann hlýtur jafnframt að vera mjög mikil, segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og heldur áfram. 

„Þannig að ég bara get ekki nálgast þessa spurningu á þessum forsendum þegar ég þekki það sjálf af eigin raun að það gengur ekki upp að reyna að komast af á launum sem láglaunakonum t.d á Íslandi eru boðin, þegar þú bætir aðstæðum á húsnæðismarkaði inn í það dæmi, gífurlegum háum atvinnukostnaði, og svo framvegis og svo framvegis. 

Niðurstaðan er sú að hér er hópur fólks, sem þrátt fyrir langa vinnudaga, þrátt fyrir að starfa undir miklu álagi og þrátt fyrir það að starfa sannarlega við undirstöðuatvinnugreinar nær samt aldrei að vinna sér inn nógu mikið til þess að geta strokið um frjálst höfuð efnahagslega. 

Þetta er bara staðreynd í íslensku samfélagi, þessu vellauðuga en fámenna samfélagi, þetta er staðreynd sem við hljótum bara öll að skammast okkar fyrir og ég trúi ekki öðru en að við munum njóta mikils stuðnings frá samborgurum okkar í að knýja hérna fram möguleikann á því að hér geti bara allir fengið að blómstra og njóta lífsins,“ segir Sólveig og Ragnar tekur undir. 

Sjá einnig: SA: Ekki ábyrgt að hverfa frá tilboði sem lagt var fram 

„Við höfum lagt gríðarlega vinnu á okkur og uppskeran enn sem komið er enn rýr. Þegar við birtum og förum yfir það með okkar félagsmönnum hvað SA voru tilbúin til að fara langt til að mæta okkur kröfum, held ég að þessi spurning um samfélagslega ábyrgð og allt slíkt tal, að þeirri skömm verði skilað þar sem hún á heima,“ segir Ragnar og segir tilboðið hafa hljómað upp á kaupmáttarrýrnun fyrir þorra sinna félagsmanna og að hann sjái ekki ábyrgðina sem fylgi því að samþykkja slíkt tilboð.