Stefán Ei­ríks­son, út­varps­stjóri og Rakel Þor­bergs­dóttir, frétta­stjóri RÚV, segja að það sé lík­lega eins­dæmi að stór­fyirr­tæki líkt og Sam­herji leggi í per­sónu­lega her­ferð gegn blaða­manni með ára­tuga­reynslu. Þá birtir Þóra Arnórs­dóttir, rit­stjóri Kveiks, einnig fram yfir­lýsingu vegna málsins og hefur eftir Helga Seljan, frétta­manni, að á­sakanir um falsanir gagna séu með öllu rangar.

Þetta kemur meðal annars fram í yfir­lýsingu sem birtist á vef RÚV þar sem brugðist er við á­sökunum Sam­herja á hendur frétta­manninum Helga Seljan. Líkt og Frétta­blaðið greinir frá í dag sakar fyrir­tækið frétta­manninn um að hafa falsað gögn við gerð Kast­ljós­þáttar árið 2012.

„Þar eru frétta­maðurinn og RÚV sökuð um að hafa falsað gögn við gerð Kast­ljós­þáttar árið 2012 og því haldið fram að skýrsla Verð­lags­stofu sem um­fjöllunin byggðist meðal annars á, hafi aldrei verið til. RÚV hafnar þessu sem röngu,“ segir í til­kynningunni.

Segir að lík­lega sé það eins­dæmi að stór­fyrir­tæki leggi í per­sónu­lega her­ferð gegn blaða­manni með ára­tuga­reynslu. Kerfis­bundin at­laga gegn frétta­miðlum til að verjast gagn­rýninni um­fjöllun sé ekki ný af nálinni en að­ferð Sam­herja nú gangi mun lengra en þekkst hefur hér­lendis.

„Þessi grófa árás þjónar þeim eina til­gangi að skaða mann­orð frétta­manns RÚV, sem hefur hvorki falsað gögn né „átt við þau“ og trú­verðug­leika frétta­stofunnar,“ segir í til­kynningunni.

„Helgi Seljan er einn öflugasti rann­sóknar­blaða­maður landsins og hefur kallað yfir sig reiði hags­muna­aðila með vinnu sinni, og nú her­ferð stór­fyrir­tækis gegn mann­orði hans og æru. RÚV for­dæmir þessa að­för sem gerð er að frétta­manninum með til­hæfu­lausum á­sökunum.“

Full­yrðingar Sam­herja um skjala­fölsun bí­ræfnar

Þóra Arnórs­dóttir, rit­stjóri Kveiks, tekur í svipaðan streng og Rakel og Stefán. Segir mark­mið Sam­herja „með þessum drullumokstri að sverta mann­orð öflugasta rann­sóknar­blaða­manns landsins og hrella fjöl­miðla.“

Hún bendir á að for­stjóri Sam­herja hafi stöðu grunaðs manns í saka­máli. Stjórn­endur Sam­herja hafi aldrei svarað spurningum Kveiks um starf­semi sína í Namibíu.

Þá gagn­rýnir hún Frétta­blaðið harð­lega fyrir að hafa birt „gagrný­nis­laust við­líka at­vinnu­róg, án þess að bera undir þann sem á­sökunin beinist að, er kapítuli út af fyrir sig og varðar grund­vallar­reglur blaða­mennsku.“

Því næst vitnar Þóra í Helga Seljan sjálfan. Þar segir hann að skýrsla um saman­burð á út­flutnings­verði á karfa til Þýska­lands, sem hafi sýnt að Sam­herji seldi fyrir­tækjum sínum þar í landi afla eigin skipa á lægra verði en gerist og gengur í við­skiptum annarra, hafi sannar­lega verið til og gerð af Verð­lags­stofu skipta­verðs.

„Það, hvers vegna nú­verandi starfs­maður Verð­lags­stofu hafnar því núna, 8 árum eftir birtingu þess í sjón­varpi, að það hafi verið gert, er með nokkrum ó­líkindum, þó ekki sé fastar að orði kveðið,“ skrifar Helgi.

„Það er ekki bara rangt, heldur einkar bí­ræfið hvernig því er haldið fram í „þætti“ Sam­herja að um­rætt skjal hafi verið falsað. Raunar kallast þessar kenningar þeirra á í mynd­bandinu. Það er ýmist sagt falsað, eða því breytt. Hvort tveggja er rangt. Sundur­klippt um­mæli um að átt hafi verið við skjalið, vísa ein­göngu til þess að áður en það var birt voru per­sónu­greinan­legar upp­lýsingar, sem hefðu getað vísað á heimildar­mann, af­máðar af því. Það að snúið sé út úr því með þeim hætti sem gert er, segir alla söguna um raun­veru­legan til­gang þessarar mynd­banda­gerðar Þor­steins Más og fé­laga.“

Þá segir Helgi að það að Sam­herji hafi haft í höndunum hljóð­upp­töku af fundi síns og Jóns Óttars í sex ár en fyrst birt hana núna, segi sitt um hve raun­veru­legt sönnungar­gagn um sam­særi af hans hálfu sé að ræða.

Vinnu­brögð Frétta­blaðsins ó­á­sættan­leg

Þá tekur hann í sama streng og Þóra og gagn­rýnir vinnu­brögð Frétta­blaðsins. Hann segir að vinnu­brögð blaðsins, ó­líkt Sam­herja, sæti furðu.

„Bornar eru fram ein­hliða- og án nokkurs mögu­leika á and­mælum, á­sakanir sem eru ekki bara al­rangar, heldur líka graf­alvar­legar. Einu við­mælendur Frétta­blaðsins í fréttinni eru launaðir starfs­menn Sam­herja auk for­stjóra Sam­herja,“ skrifar Helgi.

„Frétta­blaðið bar efni for­síðu­fréttarinnar í dag aldrei undir mig, eða á­sökunina sem í henni felst. Þetta eru einu sam­skipti mín við Ara Brynjólfs­son, blaða­mann Frétta­blaðsins um málið frá í gær. (Sjá komment nr. 2) Hér nefnir hann aldrei efnis­at­riði málsins, þá stað­reynd að hann hafði aug­ljós­lega séð þáttinn sem hann vísar til og ætlaði sér að skrifa um efni hans frétt, full­kom­lega gagn­rýnis­laust.“

Segir frá­sögn Jóhannesar svíða mest

Því næst tekur Helgi fyrir frá­sögn Sam­herja af því að hann hafi hitt sjó­mann á Þora­blóti Reyð­firðinga sem ekki bar sig vel vegna hluta­skipta um borð í einu skipa Síldar­vinnslunnar í Nes­kaups­stað.

„Sú frá­sögn er upp­spuni frá rótum. Síðast­liðið haust, stuttu fyrir um­fjöllun Kveiks um starf­semi Sam­herja í Namibíu og rétt eftir að Sam­herja var ljóst að um málið yrði fjallað í fjöl­miðlum, birtist svo ný frá­sögn. Í þetta sinn af því að ég hefði haft uppi yfir­lýsingar um að „taka niður Þor­stein Má“. Aftur var farið með rangt mál. Nú er trommað upp með ítar­legri út­gáfu af sömu sögu, og aftur er hún röng. En í þetta sinn er kallaður til fót­göngu­liði úr hópi við­skipta­fé­laga Þor­steins Más, og hann kynntur til sögunnar sem fyrrum lágt settur milli­stjórnandi dóttur­fé­lagsins í Nes­kaup­stað. Sá maður er Jóhannes Páls­son.“

Helgi segir því næst að frá­sögn Jóhannesar svíði kannski mest. Hann hafi þekkt Jóhannes síðan hann var barn, hann hafi verið ná­granni Helga og fjöl­skyldur þeirra vina­fólk.

„En Jóhannes Páls­son var líka og er með­eig­andi Þor­steins Más Bald­vins­sonar í eignar­halds­fé­laginu Snæ­fugli, sem er stór eig­andi Síldar­vinnslunnar í Nes­kaup­stað. Um­mæli hans verða því að skoðast í því ljósi, rétt eins og um­mæli annarra þeirra sem eru til við­tals í „þætti“ Sam­herja og eiga það allir sam­eigin­legt að hafa at­vinnnu af því að gæta með einum eða öðrum hætti hags­muna fyrir­tækisins,“ skrifar Helgi.

Hann segir að full­yrðingar um að hann hafi sagt Jóhannesi frá því að hann væri með stórt mál gegn Sam­herja, vitandi um aug­ljós tengsl mannanna og sam­eigin­lega hags­muni, séu galnar.

„Enda al­rangt. Sam­tal okkar Jóhannesar í um­rætt sinn sneri að hvort hann hefði í störfum sínum fyrir Síldar­vinnsluna orðið var við að af­urða­kaup Sam­herja af skipum Síldar­vinnslunnar færu fram á lægra verði en gekk og gerðist, eins og frá­sagnir sjó­manna fyrir­tækisins og kvartanir til Verð­lags­stofu sögðu til um. Eftir á að hyggja voru það auð­vitað mis­tök af mér að ræða þetta mál­efni, jafn­vel með þessum fyrir­vörum, við gamlan fjöl­skyldu­vin eins og Jóhannes, einkum við þessar að­stæður. Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að hann myndi, átta árum síðar, stíga fram og ljúga upp í opið geðið á al­þjóð, til þess eins að taka þátt í þessum furðu­leið­angri við­skipta­fé­laga síns, Þor­steins Más Bald­vins­sonar.“

Engum dyljist raun­veru­legur til­gangur her­ferðarinnar

Að lokum tekur Þóra Arnórs­dóttir fram að engum dyljist hver raun­veru­legur til­gangur he­ferðar Sam­herja sé.

„Hann er tví­þættur: Að reyna að hafa af blaða­mönnum æruna með at­vinnu­rógi af versta tagi og það sem skiptir jafn­vel meira máli - að dreifa at­hyglinni frá þeirri stað­reynd að Þor­steinn Már Bald­vins­son og starfs­menn hans sæta nú rann­sókn í stóru saka­máli og hafa til þessa ekki svarað lykil­spurningum um fram­ferði fyrir­tækisins á er­lendri grund.“