Lands­réttur stað­festi í gær úr­skurð héraðs­dóm um að þing­hald skuli vera opið í máli Jóhannesar Tryggva Svein­björns­sonar, nuddara, sem var fyrr á þessu ári dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum.

Jóhannes Tryggvi hafði farið fram á að þing­hald yrði lokað en konan, sem kærði hann fyrir að brjóta á sér kyn­ferðis­lega, krafðist þess ekki.

Vitnað var til þess að það yrði að fjalla um mál kvennanna sem hann braut á í greinar­gerð sem yrði lögð fram og að þær yrðu mögu­lega að koma fram sem vitni. Þing­hald í þeirra máli var lokað en oft er það þannig í kyn­ferðis­brota­málum, og sér­stak­lega þegar fjallað er um mál­efni barna.

Jóhannesi Tryggva er gefið að sök að hafa haft önnur sam­ræði en kyn­ferðis­mök við konuna með því að hafa káfað á henni og sett fingur í leg­göng hennar á meðan hún lá fá­klædd á nudd­borði hans. Hann er talinn þannig hafa mis­notað sér það traust sem hún bar til hans.

Úrskurður Landsréttar er hér.

Rann­sókn á máli Jóhannesar Tryggva hófst árið 2018. Það sama ár fjallaði Frétta­blaðið ítar­lega um málið og ræddi við Sig­rúnu Jóhanns­dóttur lög­mann og réttar­gæslu­mann nokkurra kvenna sem höfðu lagt fram kærur á hendur manninum. Alls kærðu á annan tug kvenna Jóhannes fyrir kyn­ferðis­brot.

Lýsingar kvennanna voru flestar á þann veg að þær hefðu leitað til hans vegna stoð­kerfis­vanda­mála, við með­ferðina hefði hann snert kyn­færi þeirra og í flestum til­fellum farið með fingur inn í leg­göng þeirra eða enda­þarm.