Ný rannsókn á vegum Columbia-háskóla í New York sýnir að koltvísýringslosun manna hefur langtum meiri áhrif á loftslagið en eldfjallavirkni gerði á miklu virkni­skeiði fyrir um 55 milljónum ára. Rannsóknin var gerð með því að efnagreina skeljar smádýra í hafinu og bera saman við steingervinga.

„Við viljum skilja hvernig kerfi jarðarinnar bregðast við mikilli losun koltvísýrings núna. Það tímabil sem við skoðuðum er ekki fullkomlega sambærilegt en það er það næsta sem við höfum í jarðsögunni. Við sjáum að loftslagið breytist mun hraðar í dag,“ segir Laura Haynes, aðstoðarprófessor við Columbia.

Tímabilið sem um ræðir er á mörkum paleósens og eósens. Þetta eru um 100 þúsund ár sem voru þau heitustu á nýlífsöld sem hófst fyrir 65 milljónum ára og stendur enn yfir. Í upphafi þessa tímabils hófu eldfjöll heimsins að spýja miklu magni kolefnis út í andrúmsloftið, sérstaklega á norðurhveli jarðar og í Ameríku. Meðalhitastig jarðarinnar hækkaði alls um 8 gráður á Celsíus. Hafa ber þó í huga að heitara var á jörðinni fyrir þessa hlýnun en nú er.

Helstu áhrifin sem þessi eldfjallavirkni hafði var útdauði fjölda dýra og jurtategunda, sérstaklega í hafinu. En eins dauði er annars brauð og ýmsar aðrar lífverur styrktust og þeim fjölgaði í kjölfarið. Til dæmis svif og forfeður okkar, prímatarnir.

Haynes og félagar notuðu skeljaðar smálífverur, sem kallast foraminfera, til þess að gera samanburð á tveimur tímabilum jarðsögunnar. Lífverurnar voru ræktaðar í sýrðum sjó og magn bórs mælt í skeljunum. Þetta var svo borið saman við steingerða foraminfera sem hafa legið á botni Kyrrahafs og Atlantshafs í 55 milljónir ára.

Komust vísindamennirnir að því að á umræddu tímabili hefði koltvísýringur aukist um 60 prósent í hafinu, að mestu leyti vegna eldgosanna. Höfin súrnuðu og voru mjög súr um árþúsund. Að öllum líkindum hafa flestar djúpsjávarlífverur drepist. Þetta gerðist hins vegar mjög hægt.

Í dag súrnar hafið hins vegar mun hraðar en á þessu mikla virknitímabili. Það tók mannkynið aðeins nokkra áratugi að auka koltvísýring í hafinu jafn mikið og tók eldfjöllin árþúsund að gera.

Barbel Honisch, jarðefnafræðingur hjá Columbia, bendir á að lífverur geta aðlagast breytingum gerist þær nógu hægt en hraðinn sé áhyggjuefni. „Við erum á miklu meiri hraða en fortíðin og afleiðingin verður að öllum líkindum mjög alvarleg,“ segir hún.