Landsréttur hefur birt úrskurð sinn um að ekki skyldi framlengja úrskurð annars mannsins sem grunaður eru í hryðjuverkamálinu svokallaða. Í úrskurðinum kemur fram hvers vegna honum var sleppt úr haldi, en jafnframt er að finna upplýsingar um meintar áætlanir þeirra um að skipuleggja hryðjuverk.

Mönnunum tveimur var sleppt úr gæsluvarðhaldi á þriðjudag í þessari viku.

Í samskiptum mannanna eiga þeir að hafa rætt saman um að fremja voðaverk, til dæmis með skotvopnum, eða með því að „keyra trukk í gegnum hóp fólks“. Auk þess hafi þeir talað um að fremja drónaárásir.

Mikið efni um hvernig eigi að fremja hryðjuverk

Í fórum þeirra hafi einnig verið að finna mikið efni um þekkta hryðjuverkamenn, voðaverk þeirra, stefnur, yfirlýsingar, sem og verknaðar-og undirbúningsaðferðir fyrir hryðjuverk.

„Af gögnum málsins má sjá að kærði X og meðkærði Y hafa tileinkað sér og viðað að sér mörgu af því sem finna má í „manifesto“ þekktra árásarmanna,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Líkt og áður hefur komið fram í fjölmiðlum eiga þessar meintu skipulögðu árásir að hafa beinst að stofnunum líkt og Alþingi, dómsmálaráðuneytinu og lögreglu. Auk þess sem þeir hafi lýst yfir löngun og vilja til að skaða og drepa einstaklinga líkt og ráðherra, þingmenn, formann stjórnmálaflokks og verkalýðsforingja.

Ekki hættulegur sér né öðrum

Í úrskurði Landsréttar, sem ákvarðaði að mennirnir skyldu verða lausir úr haldi, er vísað til mats geðlæknis sem sagði að af gögnum málsins væri ekki séð að geðrænt heilbrigði mannsins væri þannig að hætta stafi af honum gagnvart honum sjálfum, öðrum einstaklingum eða hópum.

Þó tekur geðlæknirinn fram að sitt áhættumat á einstaklingnum gæti leitt til annarar niðurstöðu en áhættumat lögreglu.

Þessi skýrsla byggði á samtölum við manninn, sambýliskonu hans og föður, læknisfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum málsins.

„Raunverulegir gerendur“ en ekki „lyklaborðs stríðsmenn“

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að leitað hafi verið álits sérfræðinga Europols í málefnum hryðjuverka og hryðjuverkasamtaka. Þeir mátu það svo að báðir sakborningarnir hefðu verið við það að grípa til aðgerða og framkvæma hryðjuverk á Íslandi.

„Eru báðir sakborningarnir sagðir vera raunverulegir gerendur (actors in real life) en ekki lyklaborðs stríðsmenn (keyboard-warriors).“ segir í úrskurðinum þegar vísað er til mats Europol.

Að teknu tilliti til öfgahugmyndafræði mannanna, aðdáunar þeirra þekktum hryðjuverkamönnum, þekkingar þeirra og aðgangs að vopnum, einangrunar þeirra og fleiri þáttum taldi Europol mennina tvo vera hóp sem væri reiðubúinn til að fremja hryðjuverk.

Að mati Landsréttar þótti ákæruvaldið þó ekki hafa fært fullnægjandi rök fyrir því að nauðsynlegt væri að maðurinnsæti áfram gæsluvarðhaldi á þeim grunni og því var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Ekki væri nægilegt að árás mannsins væri möguleg heldur þyrfti eitthvað að benda til þess að hún væri yfirvofandi eða að minnsta kosti mjög líkleg.

Fréttin hefur verið uppfærð.