Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem er grunaður um hin ýmsu brot. Manninum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til fyrsta desember.

Í úrskurðinum eru brotin sem maðurinn er grunaður um útlistuð, en um er að ræða þrettán atvik sem áttu sér stað frá 2 apríl til 7 oktober á þessu ári.

Á meðal þeirra brota sem maðurinn er grunaður um er eitt valdstjórnarbrot, þar sem honum er gefið að sök að hafa sveiflað kúbeini í átt að lögregluþjóni, sem á að tók upp piparúðabrúsa og skipað manninum að leggja frá sér vopnið. Þá á maðurinn að hafa hvatt lögreglumanninn til að „mace-a“ sig.

Fram kemur að hann hafi verið með móturhjólahjálm þegar þetta gerðist, en lögregluþjónninn var að sinna tilkynningu um innbrot. Maðurinn neitar sök í þessu tiltekna máli.

Flúði á rafhlaupahjóli

Annað brotið sem maðurinn er grunaður um varðar eflaust sama málið, þar sem það er dagsett sama dag ásamt því sem önnur atriði eru eins. Þar segir að maðurinn hafi verið að brjótast inn í verslun. Þegar lögreglu bar að garði hafi hann verið að eiga við hurð í versluninni. Og síðan kastað frá sér verkfæri og tösku og síðan haldið kúbeininu á lofti.

Þá hafi lögreglumennirnir farið og sótt kylfurnar sínar í lögreglubílinn, en þá á maðurinn að hafa flúið af vettvangi á rafmagnshlaupahjóli. Lögreglan hóf eftirför og handtók hann að lokum. Maðurinn játar sök í því máli.

Fjöldi þjófnaðarbrota

Flest hinna brotana varða þjófnað, nytjastuld, sem og fíkniefna- og umferðarlagabrot. Hann er til að mynda grunaður um að stela skargripum, armbandsúrum, bílum, fartölvu, verkfærum, bensínkorti, rafmagnshlaupahjóli, Ipad, verkfærahillu og fleiru. Hann ýmist játar eða neitar sök.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn eigi nokkuð langan sakaferill að baki sem nái aftur til ársins 2006, en hefur ekki hlotið dóm síðan 2017. Þá segir að miklar líkur séu á því að hann muni halda brotastarfsemi sinni áfram verði hann látinn laus og því hefur hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til fyrsta desember.