Offord lávarður, aðstoðarráðherra Skotlandsmála í ríkisstjórn Bretlands, sakaði nýlega landa sinn Angus Robertson, ráðherra stjórnarskrár, menningar og ytri mála í landsstjórn Skotlands, um græsku á fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Báðir komu þeir til Íslands á ráðstefnuna Hringborð norðurslóða, Arctic Circle, og báðir áttu þeir tvíhliða fundi með Katrínu.

Offord lávarður situr fyrir Íhaldsflokkinn en Robertson Skoska þjóðarflokkinn.

Samkvæmt breska blaðinu The Telegraph sagði Offord að Robertson hefði „vælt um vesalings fólkið í Skotlandi“ sem væri „rænt frelsi sínu“. Að ræða innanríkismál og stjórnarskrána sé ekki heimilt.

Fjölmiðlar hafa áður fjallað um utanlandsferðir Robertson, sem eru mýmargar og hafa reynst kostnaðarsamar. Það fer öfugt ofan í andstæðinga hans að Robertson skuli nota hvert tækifæri til þess að tala fyrir sjálfstæði en ekki þeim málaflokkum sem hann á að stýra fyrir landstjórnina.

Einnig á Robertson að hafa ýkt titla sína, svo sem í ferð til Þýskalands nýlega.

„Ég var í Berlín og þar sögðu þingmenn að þeir væru að fara að hitta Angus Robertson utanríkisráðherra Skotlands,“ sagði Foulkes lávarður, í Verkamannaflokknum. „Breska ríkisstjórnin verður að finna leið til að stoppa þetta.“