„Ég var 15 ára þegar ókunnugur maður nauðgaði mér. Ég var bara barn en enginn hjálpaði mér að skilja hvað hafði gerst eða hjálpaði mér með áfallið,“ segir Hafdís Arnardóttir ein fimm kvenna sem í dag stigu fram og fara fyrir áskorun á dómsmálaráðherra um að brotaþolar fái formlega aðild að málum sínum í réttarkerfinu.
Konurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa verið beittar ofbeldi og reynt að leita réttar síns. Þær upplifðu vanmátt, útilokun og virðingarleysi í vegferð sinni í gegnum réttarkerfið og að kerfið sjálft væri ómannúðlegt.
„Að fara í gegnum kæruferli var áfall ofan í áfallið. Ég myndi aldrei leggja það á mig aftur,“ segir Hafdís í frásögn sinni sem lesa má í heild sinni á vef Stígamóta, þar má einnig skrifa undir áskorun til dómsmálaráðherra.
Frumvarp um bætta réttarstöðu brotaþola
Á næstu vikum mun dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, leggja fram frumvarp um bætta réttarstöðu brotaþola. Í tilkynningu frá Stígamótum segir: Við skorum á dómsmálaráðherra að stíga skrefið til fulls og veita brotaþolum aðild, eða flest þau réttindi, sem sakborningar njóta. Nú er tækifærið til að stíga skref í áttina að bættu samfélagi með réttarkerfi sem tekur almennilega á kynbundu ofbeldi.
Konurnar fimm lýsa ofbeldinu sem þær urðu fyrir og reynslu þeirra á réttarkerfinu. „Það sem hafði hvað mest áhrif á mig er reiðin gagnvart niðurfellingunni og sú staðreynd að ég gat ekkert aðhafst meira í mínu máli. Það er eitt þegar óbreyttur borgari brýtur á manni, en annað þegar kerfið sem ég treysti á lét ekki á það reyna að koma málinu áfram,“ segir í frásögn Lindu Bjargar.
„Eftir heilt ár af þögn kom niðurfellingarbréfið óvænt. Það var algjört áfall, ég var andlega algjörlega óviðbúin niðurfellingu. Enda var ég ekki sú fyrsta sem kærði hann,“ segir í frásögn Júníu.
Augljóst réttlætismál
Í tilkynningu frá Stígamótum segir að vissulega þurfi að laga mara þætti þegar kemur að kynferðisofbeldismálum og öðru kynbundnu ofbeldi. Lögreglan sé undirmönnuð, betur mætti gera í fræðslu og endurmenntun auk þess að enn sé viðhorfsvandi á ýmsum stöðum.
„En nú er hér bent á lagalegt atriði sem er augljóst réttlætismál – þetta er hægt að laga með lagasetningu og það myndi strax styrkja stöðu þolenda kynbundins ofbeldis sem leita réttar síns,“ segir í tilkynningunni.
„Ef við viljum búa til mannúðlegra réttarkerfi sem tryggir betur gæði rannsókna þá gerum við þolendur kynbundins ofbeldis að aðilum máls.“
Hér má skrifa undir áskorunina og lesa frásagnir kvennanna fimm.