„Ég var 15 ára þegar ó­kunnugur maður nauðgaði mér. Ég var bara barn en enginn hjálpaði mér að skilja hvað hafði gerst eða hjálpaði mér með á­fallið,“ segir Haf­dís Arnar­dóttir ein fimm kvenna sem í dag stigu fram og fara fyrir á­skorun á dóms­mála­ráð­herra um að brota­þolar fái form­lega aðild að málum sínum í réttar­kerfinu.

Konurnar eiga það allar sam­eigin­legt að hafa verið beittar of­beldi og reynt að leita réttar síns. Þær upp­lifðu van­mátt, úti­lokun og virðingar­leysi í veg­ferð sinni í gegnum réttar­kerfið og að kerfið sjálft væri ó­mann­úð­legt.

„Að fara í gegnum kæru­ferli var á­fall ofan í á­fallið. Ég myndi aldrei leggja það á mig aftur,“ segir Haf­dís í frá­sögn sinni sem lesa má í heild sinni á vef Stíga­móta, þar má einnig skrifa undir á­skorun til dóms­mála­ráð­herra.

Frum­varp um bætta réttar­stöðu brota­þola

Á næstu vikum mun dóms­mála­ráð­herra, Jón Gunnars­son, leggja fram frum­varp um bætta réttar­stöðu brota­þola. Í til­kynningu frá Stíga­mótum segir: Við skorum á dóms­mála­ráð­herra að stíga skrefið til fulls og veita brota­þolum aðild, eða flest þau réttindi, sem sak­borningar njóta. Nú er tæki­færið til að stíga skref í áttina að bættu sam­fé­lagi með réttar­kerfi sem tekur al­menni­lega á kyn­bundu of­beldi.

Konurnar fimm lýsa of­beldinu sem þær urðu fyrir og reynslu þeirra á réttar­kerfinu. „Það sem hafði hvað mest á­hrif á mig er reiðin gagn­vart niður­fellingunni og sú stað­reynd að ég gat ekkert að­hafst meira í mínu máli. Það er eitt þegar ó­breyttur borgari brýtur á manni, en annað þegar kerfið sem ég treysti á lét ekki á það reyna að koma málinu á­fram,“ segir í frá­sögn Lindu Bjargar.

„Eftir heilt ár af þögn kom niður­fellingar­bréfið ó­vænt. Það var al­gjört á­fall, ég var and­lega al­gjör­lega ó­við­búin niður­fellingu. Enda var ég ekki sú fyrsta sem kærði hann,“ segir í frá­sögn Júníu.


Aug­ljóst rétt­lætis­mál

Í til­kynningu frá Stíga­mótum segir að vissu­lega þurfi að laga mara þætti þegar kemur að kyn­ferðis­of­beldis­málum og öðru kyn­bundnu of­beldi. Lög­reglan sé undir­mönnuð, betur mætti gera í fræðslu og endur­menntun auk þess að enn sé við­horfs­vandi á ýmsum stöðum.

„En nú er hér bent á laga­legt at­riði sem er aug­ljóst rétt­lætis­mál – þetta er hægt að laga með laga­setningu og það myndi strax styrkja stöðu þol­enda kyn­bundins of­beldis sem leita réttar síns,“ segir í til­kynningunni.

„Ef við viljum búa til mann­úð­legra réttar­kerfi sem tryggir betur gæði rann­sókna þá gerum við þol­endur kyn­bundins of­beldis að aðilum máls.“

Hér má skrifa undir áskorunina og lesa frá­sagnir kvennanna fimm.